11.08.1915
Neðri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

97. mál, slysfaramál

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Sök bítur sekan. Það sannast á háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.). En jeg tel mig hafa rjett til að heimta það, þótt hann haldi ekki langar ræður, að hann þó skýri svo greinilega frá áliti sínu, að hann komi ekki á eftir í bakseglin.

Þó að jeg leggi kapp á þetta mál — það getur verið, að það sje minn galli, að jeg leggi kapp á þau mál, sem jeg flyt — þá virðist mjer ekki ástæða til að beita því sem vopni gegn málinu. Hvað það snertir, að jeg hafi haft aðra skoðun á þessu 1913, þá hefi jeg gjört grein fyrir því áður, af hvaða ástæðum það er.