14.08.1915
Neðri deild: 33. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

99. mál, kornvöruforði

Pjetur Jónsson:

Jeg bjóst við, að einhverjir fleiri mundu taka til máls út af þessarri tillögu en hv. flutnm. hennar (S.E.). Því miður er jeg ekki við því búinn að ræða mikið um þetta dýrtíðarmál, þar sem jeg hefi verið nokkuð mikið önnum kafinn af öðru nú að undanförnu. Jeg verð að játa, að dýrtíðarmálið sje eitt af allra stærstu málunum, sem þetta þing hefir til meðferðar, og jeg álít, að það hafi komið í ljós við umræðurnar hjer í Nd. um dýrtíðarfrv., að menn hafi ekki lagt sig eins fram í þessu máli og átt hefði að vera. Jeg gjöri ráð fyrir, að þessi þingsályktunartill. sje fram komin fyrir það, að flutnm. hennar (S. E.) hafi sýnst, að málinu hafi ekki verið sint með eins miklum krafti og hraða og þurft hefði. Jafnvel þótt jeg sje að nokkru leyti sammála honum í þessu, get jeg ekki fallist á tillöguna eins og hún liggur fyrir.

Jeg er ekki viss um, að það sje alls kostar rjett að skora á stjórnina að kaupa þegar í stað korn, til þess að birgja landið, án alls undirbúnings. Eins og kunnugt er, er frumv. á leiðinni í gegn um þingið, þar sem stjórninni er heimiluð lántaka, til þess að birgja landið með nauðsynjavöru, bæði korni, kolum, salti o. s. frv. Jeg verð að taka þessa till. svo, að með henni sje verið að herða meira á stjórninni en þetta frv. gjörir, þegar það er orðið að lögum, sem væntanlega verður innan skams. Að öðru leyti er tillagan ekki um annað en það, sem frumv. segir fyrir um.

Það, sem aðallega gjörir það að verkum, að jeg get ekki fallist á tillöguna, er það, að jeg tel varhugavert, að stjórnin hrapi svo að kornkaupunum, að nauðsynlegur undirbúningur farist fyrir. Jeg álít, að hún þurfi áður að kynna sjer, hvaða útvegi kaupmenn og kaupfjelög úti um landið hafi, til þess að afla sjer vörubirgða fyrir veturinn. Jeg er hræddur um, ef landsstjórnin gjörir nú þegar, án alls undirbúnings, ráðstafanir til forðakaupa, að það geti orðið til þess, að þeir kippi að sjer hendinni, sem annars mundu birgja landið upp á venjulegan hátt. Gæti þá farið svo, að árangurinn yrði annar en til er stofnað, og að kornforðinn yrði, með þessu móti, minni í landinu, í stað þess að vera meiri.

Það er vitaskuld, að svo getur farið, ef aðflutningar til landsins teppast alt í einu, að ráðstafanir þær, sem kaupmenn og kaupfjelög kunna að hafa gjört, komi að engu haldi. En þetta sama getur líka orðið, áður en ráðstafanir landsstjórnarinnar komist í framkvæmd.

Jeg er alls ekki á móti skoðun hv. flutningsm. tillögunnar (S. E.), að rjett sje að hafa vakandi auga á því, að ekki dragist úr hömlu að birgja landið með nauðsynjavöru. En jeg vil ekki heldur, að hjer sje rasað fyrir ráð fram. Jeg hygg, að engin ástæða sje til, að vantreysta stjórninni í þessu efni, sjerstaklega þar sem innan skamms verður kosin Velferðarnefnd henni til aðstoðar. Jeg gjöri ráð fyrir, að undir eins og nefndin er kosin, þá fari hún að leita sjer upplýsinga um vöruforða í landinu og þær ráðstafanir, sem kaupmenn og kaupfjelög hafa gjört, til þess að útvega vörur.

Þar sem jeg, eins og jeg þegar hefi tekið fram, er að vissu leyti samþykkur efni tillögunnar, þá kann jeg ekki við að greiða beinlínis atkvæði á móti henni. Jeg vildi heldur víkja henni hjá, á annan hátt. Mjer hefir því dottið í hug að bera fram rökstudda dagskrá, sem hljóðar á þessa leið:

Í því trausti, að landsstjórnin, í samráði við væntanlega Velferðarnefnd, annist í tíma nauðsynlegar og lögmæltar ráðstafanir gegn bjargarskorti, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.