14.08.1915
Neðri deild: 33. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

99. mál, kornvöruforði

Pjetur Jónsson:

Jeg skil illa þenna ákafa háttv. flutningsmanns (S. E.), því að jeg fæ ekki sjeð, að okkur beri í raun og veru nokkuð í milli, að því er efni málsins snertir, nefnilega það, að stjórnin gjöri þær öryggisráðstafanir í þessu máli, sem nauðsynlegar sjeu. Háttv. flutningsm. (S. E.) sagði, að sá skilningur, sem mjer virtist rjett að leggja í tillöguna, að stjórnin ætti án undirbúnings að ráðast í þessi matvörukaup, kæmi ekki til nokkurra mála. En sje svo, þá er ekkert, sem milli ber, annað en það, að jeg tel þá tillöguna óþarfa.

Jeg verð að halda því fram, að nægilegt sje af þingsins hálfu það, sem heimildarlagafrumv. fer fram á. 2. gr. þess gjörir ráð fyrir því, að stjórnin kaupi matvörubirgðir handa landinu, ef þörf gjörist, og heimilar henni að taka alt að 1 milj. kr. lán í þeim tilgangi. Jeg álít það í alla staði rjett og sjálfsagt, að stjórnin fari nú þegar að grenslast eftir því, hvort hún geti fengið lánið, sem þarf, auk peninganna í Ameríku, og eins hvort hún megi vera án þeirra peninga frá öðrum útgjöldum. Jeg hefi þá von, að þessi ½ milj. kr. í Ameríku sje handbær til kaupanna.

Háttv. flutningsm. (S. E.) lagði þá andstæðu þýðingu í dagskrána, sem liggur hjer fyrir, að hún leyfði stjórninni að bíða með þessar ráðstafanir von úr viti. Það væri allóheppilegt, ef samþykt dagskrárinnar yrði til þess, að lagður yrði þveröfugur skilningur í hana. En jeg veit, að svo verður ekki. Það var alls ekki meining mín, að bíða ætti með það, að vinna að málinu, fremur en það hefir verið meining hv. flutningsm. (S. E.), að rjúka til þess, að kaupa birgðirnar undirbúningslaust. En ef hætt er við, að lagður verði andstæður skilningur, bæði í þingsál.till. og dagskrána, þá teldi jeg það rjettast, að hv. flutningsm. tillögunnar tæki hana aftur, og væri jeg þá fús á að taka dagskrána aftur, enda fjelli hún af sjálfu sjer. Þá stæði frumv. eitt eftir, og yrði að lögum. Jeg hefi þá hugsað mjer ganginn í málinu eitthvað á þessa leið: Ráðherra hefir lýst yfir því, að þegar sje farið að undirbúa málið af stjórnarinnar hálfu. Það er auðvitað ágætt. Svo verður bráðlega Velferðarnefnd kosin, og kemur þá auðvitað fleira til athugunar. Jeg býst við, að háttv. flutnm. (S. E.) verði í þeirri nefnd, og er þá hægurinn hjá, að herða á stjórninni, ef hún hraðar sjer ekki svo sem þörf er á. Þingið situr fram í september, svo að jeg fæ ekki annað sjeð en að það geti hert á stjórninni, hve nær sem því sýnist, ef þörf gjörist fyrir þinglok.

Háttv. flutningsm. (S. E.) sagði, að það væri á valdi þingsins, að taka ráð í tíma. En hvaða ráð eru þetta, sem þingið á að taka? Jeg hefi bent á það áður, að sú marg um talaða ráðstöfun gæti orðið til þess, að kaupmenn keyptu mikið minna korn, og svo gæti farið, að það, sem drægist frá af kornpöntunum, gæti numið meira en því, sem landið útvegaði. Og þá væri illa farið.

Jeg kann illa við það, að fá brýnslur hjá háttv. flutnm. (S. E.) um öryggisráðstafanir. Jeg er eldri maður en hann, og hefi nú í 30 ár aðallega fengist við það, að hugsa um öryggisráðstafanir undir veturinn, raunar ekki fyrir alt landið, en dálítinn part af landinu, stóra sýslu. Og jeg er búinn að fá reynslu fyrir því, hvað þessar ráðstafanir kosta, og hvers virði þær eru.

Jeg hefi svo ekki miklu við að bæta. Jeg vil ekki fortaka það, að rjett gæti verið, að draga kaupin ekki lengi, sjerstaklega ef þau yrðu gjörð í samráði við kaupmenn og kaupfjelög út um land, svo að ekkert yrði dregið úr þeirra vöruútvegunum. Við því vil jeg vara menn.

Í þessu sambandi vil jeg nota tækifærið, til að minna á það, ef til útvegana á vöruforða kemur, af stjórnarinnar hálfu, að það er ekki heppilegt, að sá forði sje allur settur á land hjer í Reykjavík. Það gjörir vöruna dýrari, að þurfa að borga uppskipun og útskipun og fragt m. m. umfram fult verð hjer í Reykjavík. Það getur auðvitað verið, að kalla megi alt landið trygt, ef vörurnar eru lagðar upp í Reykjavík, en sú trygging er ekki næg, ef t. d. ís kemur og hindrar samgöngurnar. Og þó ís sje ekki til að dreifa, getur orðið örðugt og óvíst, að ná vörunum frá Reykjavík á sumar hafnir.

Málið tekið út af dagskrá, eftir ósk ráðherra og fleiri.