16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (2724)

99. mál, kornvöruforði

Sveinn Björnsson:

Jeg verð að segja, að mig furðaði, er jeg sá þingsályktunartillögu þá, sem hjer liggur fyrir til umræðu. Mig furðaði á, að hún skyldi koma fram nú, þegar meira en mánuður er liðinn af þingtímanum. Það er eins og háttv. aðalflutningsmaður hennar (S. E.) hafi fundið það nokkuð seint, að ástæða væri til að tryggja landið á þann hátt, sem tillagan fer fram á. Mig furðaði á því, að hún skyldi koma fram á þeim tíma, sem öllum er vitanlegt, að á ferðinni eru lög, sem heimila slíka ráðstöfun. Og mig furðaði því meir, þar sem jeg vissi, að sama hv. þm. (S. E.) var kunnugt um, að lögin frá í fyrra, sem heimiluðu slíkar ráðstafanir, gengu úr gildi 7. júlí. Honum er persónulega kunnugt um, að hvorki þurfti að hvetja stjórnina nje Velferðarnefndina til þess, að gjöra það, sem lögin frá í fyrra heimiluðu. Stjórnin og Velferðarnefndin ljetu sjer ant um að gjöra allar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þóttu. Þess vegna er engin ástæða til að væna núverandi stjórn og væntanlega Velferðarnefnd þess, að þær sitji auðum höndum og gjöri ekki neitt.

Mjer hefði fundist eðlilegt, að tillagan kæmi fram, ef svo hefði verið, að heimildarlög hefðu verið samþykt, og svo hefði liðið langur tími, án þess að nokkrar ráðstafanir hefðu verið gjörðar. Þá hefði tillagan átt fullan rjett á sjer.

Mig furðaði enn fremur á einu. Af tillögunni sjálfri verður ekki sjeð, hver tilgangurinn er. Jeg get hugsað mjer tvenns konar tilgang. Annar er sá, að landsstjórnin ætti að birgja landið upp með korni, til þess að tryggja mönnum nægan forða, ef í nauðir ræki, og hinn er sá, að gjöra nú þegar eða sem allra fyrst ráðstafanir til að útvega kornið með svo góðum kjörum, að hægt yrði að selja landsmönnum það með viðunanlegu verði. Því það er hugsanlegt, að kornverð yrði svo hátt, að almenningi yrði um megn að kaupa korn. Þetta er ástæða, sem talandi væri um. En slíkt kemur ekki fram í tillögunni, og jeg hefi ekki heyrt flutningsmann hennar geta um þennan tilgang. Það, sem mjer hefir helst skilist á honum, er það, að meiningin sje sú, að kaupa slatta af korni, ekki til þess að selja landsmönnum það við ódýru verði, heldur til þess að geyma það. Hægt er hugsa sjer, að matvælaskortur yrði á miðjum vetri. Á þá að selja mönnum kornið, og hvernig á að selja það? Það er alt óákveðið í tillögunni, og þegar af þeirri ástæðu er erfitt að greiða atkvæði um hana. Það er tæplega nægilegt, þótt háttv. flutningsm. (S. E.) skýri þetta hjer við umræðurnar. Tillögunni þarf að breyta, til þess að hægt sje að átta sig á, hver meiningin er með henni. (Sigurður Eggerz: Jeg tók það fram í framsögunni). Háttv. flutningsm. upplýsir þetta þá aftur, ef það hefir skotist fram hjá mjer.

Jeg vil beina þeirri spurningu til hans: Er tilgangurinn sá, að birgja landið upp með korni, til þess að landsmenn geti fengið það keypt við hæfilegu verði? Eða er tilgangurinn að eins sá, að kaupa birgðir og geyma þær, til þess að hafa eitthvað að grípa til, ef í nauðir rekur?

Annars vildi jeg stinga því að háttv. flutningsm. (S. E.), hvort hann sjái sjer ekki fært að geyma tillöguna, þangað til ástæða er til að koma fram með hana. Það eru nú ekki margir dagar þangað til Velferðarnefndin verður kosin. Þá tekur hún öll þessi mál til íhugunar og gjörir þær margvíslegu rannsóknir, sem hjer þarf að gjöra, áður en hægt er að taka tillöguna til greina, t. d., hvort korn sje fáanlegt, hvar það sje fáanlegt og hvort skip sje fáanlegt til að flytja það. Það er bágt, að greiða atkvæði um tillöguna, eins óljós og hún nú er.

Jeg vil bæta því við, út af ræðu hv. flutningsm. (S. E.), að jeg álít það rangt, ef ekki með öllu ósæmilegt, að draga þetta mál inn í pólitíkina. Það voru ögrunarorð, sem hann sagði, að þar sem hann væri í minni hluta hjer á þinginu, þá myndi meiri hlutinn að líkindum nota tækifærið, til þess að slátra tillögunni. Þetta er tilraun til að draga málið inn í flokkapólitíkina, og það vil jeg átelja.