16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

99. mál, kornvöruforði

Skúli Thoroddsen:

Síðan Norðurálfu-ófriðurinn mikli hófst í fyrra sumar, síðustu dagana í júlí, höfum vjer Íslendingar verið svo afar hepnir, að símasamband við önnur lönd hefir einatt haldist.

Matvöru- og nauðsynjavöru-aðflutningarnir hafa og eigi verið teptir, — hvorki af Bretum nje Þjóðverjum.

En þessi yfir-hepni vor til þessa, á þó hvorki, nje má, gjöra oss um of andvaralausa.

Vjer megum þvert á móti alls ekki gleyma því, þar sem heimsófriðurinn mikli stendur enn yfir, að enn getur það þó að borið d hverri stundu, að símasambandið við önnur lönd bili, eða að aðflutningarnir teppist, og hvar stöndum vjer þá, ef svo færi?

Hverjar eru birgðirnar, af kornvöru, og annarri nauðsynjavöru, hjer á landi, sem stendur?

Mjer er ókunnugt um, hvort stjórnin hefir þegar aflað skýrslna, að því er það snertir, en hitt veit jeg vel, að bæði hagur kaupmanna vorra, og eins hitt, hve tíðar ferðirnar til annarra landa eru orðnar, veldur því, að fjöldi þeirra birgir sig eigi, nema smám saman.

Á hinn bóginn vitum vjer þó, að enn hefir flotum Þjóðverja, og mótstöðumanna þeirra, eigi lent saman, — vitum því, að hættan fer sí-vaxandi, þar sem að því verður þó því fyrr að koma, sem lengur líður, að sá heljar-leikurinn verði þó háður, og þá að líkindum í Norðursjónum, þ. e. á því svæði, sem verslunarskip vor verða að eiga leið um, eins og verslan vorri enn er háttað.

Vjer vitum þá og, að fari svo, að Bretar, til þess að komast inn í Eystrasaltið og sækja Þjóðverja þar heim, heimti, að Danir taki upp tundurskeytin (eða hvað kallað er), sem þeir hafa lagt í Beltin — ef eigi og Eyrarsund —, til varnar því, að herskip fari þar um, þá er eigi að vita, hvað verður, þ. e. Danir geta þá, ef til vill — nauðugir, viljugir — verið orðnir viðriðnir ófriðinn, er minst varir.

Gætu stygt Þjóðverja, ef þeir leyfðu herskipum Breta (og bandamanna þeirra) leið inn í Eystrasaltið, og lent þá í ófriðnum, en Bretar og neytt þá, ef þeir synjuðu.

En færi nú svo — sem vjer allir viljum þó vona, að eigi verði —, að Danir yrðu viðriðnir ófriðinn, eða símasambandið hætti, hvað þá, ef siglingarnar um Norðursjóinn, ef og eigi til Bretlands, alteptust, hvaða tök höfum vjer þá á því, að ná í svip fljótt nauðsynjum vorum frá Ameríku?

Ekki er gott að vita, hvar skip «Eimskipafjelags Íslands« væru þá stödd — ef til vill erlendis, og því oss að alls engum notum, þótt kost ættum vjer þeirra ella, og hvaða skip höfum vjer þá?

Og þótt vjer gætum fengið skip í Ameríku, náum vjer þá símasambandi þangað?

Sem stendur er og engin svo nefnd »Velferðarnefnd« til, og vjer vitum jafnvel eigi á þessari stundu, hvort lögin, sem í smíðum hafa verið, um ýmsar ráðstafanir, út af Norðurálfuófriðnum, ná kgl. staðfestingu, — vitum eigi, hvort símasambandið við útlönd hélst svo lengi, eður eigi.

Vjer vonum, að svo verði, en vitum þó eigi, hvað að höndum getur borið.

En eins og jeg drap á, rjett áðan, munu kaupmennirnir yfirleitt allflestir, enn, sem komið er, að eins hafa birgt sig svo, að þeir gætu sjeð þörfum viðskiftamanna sinna borgið yfir sumarið, og fram á haustið, — hafa ætlað sjer, að birgja sig svo síðar yfir veturinn.

Á hinn bóginn er oss Íslendingum það afarbrýn nauðsyn, að sjeð sje svo fyrir, að til verði í landinu nægilegur kornvöruforði, hvernig sem alt skipast, eða á hverju sem þá veltur.

Og þó að svo færi, að aldrei þyrfti, að grípa til kornvöruforðans til manneldis, gæti það þó komið sjer vel, að geta þá, ef á þyrfti að halda, gripið til hans, til skepnufóðurs.

Vjer vitum, að vegna hafíssins hefir veðráttan verið köld, og grassprettan því víða lítil, og þó að telja megi víst, að landbúnaðarafurðirnar verði að vísu í gífurlegu verði á komanda hausti, þá er þó eigi víst, að svo miklu verði lógað, sem þyrfti, þegar á heyin er litið, og þá eigi síður á hitt, að margir mistu að mun af sauðpeningi sínum árið, sem leið, vegna vorkuldanna, sem þá voru.

Tækist svo illa til, að siglingar til útlanda teptust, er að því kemur, að flytja ætti landbúnaðarafurðirnar á markaðinn á komanda hausti, og á öndverðum næsta vetri, gæti það og leitt til þess, að margir settu þá of djarft á.

Jeg hygg því, að happasælast, og blessunarríkast, yrði, ef þingið gjörði nú ráðstöfun til þess, að tryggja landinu nægan kornvöruforða í tíma.

Öll neyð á og einatt að fyrirbyggjast, sem unt er, eins og alt annað, sem ilt er, eða hættulegt, og reynist þingið nú óforsjált, gæti svo farið, að margan hlyti sáran að iðra þess síðar.

En sje »rökstudda dagskráin« samþykt, óttast jeg, að það geti þá orðið til þess, að draga um of úr áhuga, og framkvæmdum landsstjórnarinnar, í stað þess, að þingsályktunartillögunni er þó einmitt ætlað að ýta að mun undir hana.

Og það, að dregið sje úr áhuga stjórnarinnar, — að andvaraleysið sje örvað, ætti þó síst af öllu að verða.

Aðalatriðið, að vera þá æ sem best vakandi, er neyðin getur að dyrum barið ella.

Jeg var í gær að blaða í danska blaðinu »Politiken«, og sá þar þá, meðal annars, getið um kornvörubirgðirnar, sem Norðmenn þá höfðu. — Þær voru mjög miklar, og engu síður höfðu þeir þá þó þegar — í öndverðum júní (ef eigi seint í maí) þ. á. — trygt sjer það, að geta í haust fengið að mun af korni í Ameríku.

En telji Norðmenn — slík siglingaþjóð, sem þeir eru þó — sjer það nauðsyn, að tryggja sjer kornbirgðirnar æ meiri, og meiri, og að fresta því eigi, hversu miklu fremur er oss Íslendingum, sem að öllu erum þeim þó svo margfaldlega verr settir, þá eigi þörf þess?

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) fann það að tillögunni, að hún væri of óákveðin, — gætti þess eigi, hve nær selja ætti vöruna, og taldi yfirleitt alt það, er hjer að lyti, vera um of órannsakað.

En sje svo, þá er og því fremur brýn þörf þess, að stjórnin dragi þá eigi lengur en orðið er, að íhuga málið, og byrja á framkvæmdunum.

Annars fæ jeg ekki sjeð, að hjer sje þörf rannsókna, er talið verði.

Alt og sumt er: Á þingið, og stjórnin, þrátt fyrir hættuna, sem yfir vofir, og á getur dottið á hverri stundinni, að vera svo óforsjált, að láta enn alt reka á reiðanum, hver veit, hve lengi?

Auðvitað gjörist þess alls engin þörf, þótt varan sje útveguð, að selja hana, meðan verslanirnar eru vel birgar. — En hún á að vera til taks, og verður æ að vera til taks, ef neyðin ber að dyrum.

Hitt er og sjálfsagt, sem þm. S.-Þing. (P. J.) benti á, að kornvöruforðinn á ekki, nje má leggjast á land eingöngu hjer í Reykjavík.

Skipið, eða skipin, er vöruna sæktu til útlanda, ættu að vera leigð svo, að þau gætu lagt vöruna upp hjer og hvar, þ. e. á höfnunum umhverfis landið.

Hitt, að leggja hana t. d. alla á land hjer í Reykjavík, hefði eigi að eins óþarfan aukakostnað í för með sjer (uppskipun hjer — útskipun aftur — skipaleigur hjeðan o. fl. o. fl.), en gæti og leitt til vandræða, er veturinn er á dottinn, — skip, til að flytja hana hjeðan, á ýmsar hafnir, reynst þá alófáanleg, vandkvæði á orðið um sjóábyrgðina o. fl. o. fl. —

Hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) taldi mál þetta gjört að pólitísku deilu- eða ágreiningsmáli hjer í þinginu.

En hverir gjöra? Eru það þá ekki einmitt þeir — hann, og fjelagar hans —, sem þingsályktunartillöguna hafa þegar ásett sjer að fella?

Eða dylst það nokkrum, jafn sjálfsögð, sem þingsályktunartillagan, sem hjer um ræðir, er, að til væri fráleitt sá þingmaður, er eigi greiddi henni atkvæði sitt hiklaust, ef eigi væri pólitíski flokkarígurinn þess þá valdandi, að það má ekki þolast, að sá, eða sá, flokkurinn hafi komið því, eða því, fram, eða honum sje þakkað það?

»Rökstudda dagskráin«, sem fram er komin, sýnir það því ofur vel, hve hlægilega næmir flokkarnir, og flokksmennirnir, eru, hverir um sig, að því er það snertir, að láta ekki mótflokkinn geta hælt sjer af því, eða því, — láta ekki svo sýnast, sem honum sje það, eða það, að þakka.

Annars skiftir það — að því er mjer virðist — alls engu, úr því, sem komið er, hvort þingsályktunartillagan, eða »rökstudda dagskráin«, verður þá samþykt, láti stjórnin eigi af »dagskránni« freistast til þess, að draga þá málið ella á langinn.

En hefði »rökstudda dagskráin«, þ. e. það, að hún yrði samþykt, þau áhrif, að stjórnin yrði þá kærulausari, eða aðgjörðarlausari en ella, og tel jeg það afarilla farið.

Það er stök óforsjálni, ef ekkert er þegar gjört, til að birgja nú landið með kornvörum.

Menn mega ekki láta hepnina svæfa sig.

En þá er æ við andvaraleysinu langhættast, er vel gengur, og ekkert hefir að mun lengi á bjátað.

Engin veit þó — eins og ástatt er nú í heiminum, — hve nær hið mótdræga kann á að detta.

Það getur orðið fyrr en varir, og þá alt um seinan, sje eigi hafist handa nú þegar. —