16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

99. mál, kornvöruforði

Guðmundur Hannesson:

Háttv. flutningsm. (S. E.) kom ræð þau rök fyrir sínu máli, að við gætum alt í einu staðið uppi símalausir og skipalausir um hávetur. Símalausir getum við nú orðið, þótt enginn ófriður sje, en það tekur þó aldrei nema svo sem 4 daga fyrir einhvern botnvörpunginn okkar að skreppa til Noregs, ef á liggur. Skipalausir verðum við aldrei. Það er engin ástæða til að óttast, að bæði milliferðaskipin okkar farist, þó alt af megi segja, að ekkert sje ómögulegt, og þó svo ólíklega færi, þá eigum við fjölda skipa, auk þeirra, sem grípa mætti til, þar á meðal eitthvað 15 botnvörpunga.

Hann virtist meta það heldur lítils, að matvörur gætu lækkað í verði erlendis. Þær gætu líka hækkað. Satt er það, að þær geta hækkað, og þá væri það ekki nema forsjálni, að vera búnir að kaupa þær nú, en ef þær hins vegar lækka til muna, þá er það þó verslunartap fyrir landssjóð, sem jeg get ekki gjört svo lítið úr, og auk þess viðbúið tap af að liggja lengi með miklar birgðir óseldar. Jeg veit ekki betur en að það sje talið efalaust, að kornvöruverð myndi lækka stórum, ef það tækist að opna Dardanellasundið. Að minsta kosti olli það uppþoti í Ameríku, þegar það var talið líklegt, að þetta tækist. Þetta er að eins dæmi til að sýna það, að verðið geti líka lækkað.

Það er ekki nema eðlilegt, að Danir leggi mikið kapp á það, að safna að sjer matarbirgðum. Þeir eru á hættulegum bletti, og það er meiri hætta á því, að aðflutningar teppist þangað en hingað. Okkur geta aðflutningar orðið erfiðir og dýrir, en að þeir virkilega teppist, kemur ekki til nokkurra mála. Mjer finst, að Velferðarnefnd og stjórn muni og, af tvennu illu, vera betur settar en háttvirtar þingdeildir — að undanteknum nokkrum mönnum, sem verslunarfróðir eru — til þess að dæma um hvort hyggilegt sje að kaupa vörubirgðir eða ekki.