16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2217 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

99. mál, kornvöruforði

Ráðherra:

Jeg ætlaði ekki að tala nema einu sinni, en það voru nokkur orð í ræðu háttv. flutningsm. (S. E.) sem jeg kunni mjög illa við að heyra úr hans munni, og því stóð jeg upp aftur.

Hann var að tala um óþarfa rannsóknir, og var helst svo að skilja, sem hann vildi engar rannsóknir hafa á því, hverjar birgðir til væru í landinu og hve miklar, og hafði þar um háðuleg orð. Jeg vil nú benda á það, að í fyrra, þegar hann hjelt á stjórnartaumunum, þá voru þó slíkar rannsóknir gjörðar, eftir því sem kostur var á. Nú eru gjörðar sams konar ráðstafanir og hann ljet gjöra þá með ráði Velferðarnefndar, eins og rjett var, og þó gjörist hann svo djarfur að segja, að það sje gjört til þess, að skjóta sjer undan því, að gjöra skyldu sína. Þetta er harður áburður, sem jeg hafði ekki búist við úr þeirri átt, og jeg veit ekki hvaða ástæðu hann hefir til að láta sjer slíkt um munn fara.

Hann talaði líka um það áður, að þessi till. hans ætti að vera til þess, að vekja samvisku hins sofandi meiri hl. Þetta er blátt áfram ósvífni. Og ekki veit jeg til þess, að hann hafi unnið svo öðrum fremur að dýrtíðarlöggjöfinni hjer, að honum komi þaðan nokkur rjettur til þess, að væna aðra menn slíku. Það er ætíð óviðeigandi, sjerstaklega þegar alls ekkert er til að byggja á.

Háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.), sem annars var stiltari og þinglegri, sem vænta mátti, í ræðu sinni, kom þó með eitt atriði, sem mjer þótti kynlegt sem sje það, að dagskráin, sem hjer var borin fram af háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) miðaði til þess, að draga úr áhuga stjórnarinnar, með tilliti til þess, að sjá landinu fyrir nægum forða. Mjer skilst hún vera svo orðuð, að langt sje frá því, að hún gefi stjórninni nokkra minstu átyllu til þess, að vanrækja nokkrar framkvæmdir, sem æskilegar kynnu að vera í þá átt, eða nauðsynlegar. Í henni felst ekkert annað en það, sem þingið í fyrra lagði í hendur stjórnar og Velferðarnefndar. En í þingsál.till. háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) felst þessi viðbót, að þessa ráðstöfun skuli gjöra þegar í stað, hvernig sem ástand og horfur eru nú, og í því getur ekki annað legið en það, að hann er hræddur um að stjórn og Velferðarnefnd muni ekki gjöra það, sem hann kallar skyldu þeirra. Annars hefði hann ekki getað komið fram með þetta.

Hann talaði mikið um það, að þetta muni verða gjört að flokksmáli. Jeg skal nú ekkert um það segja, en ekki kæmi mjer það ókunnuglega fyrir, þótt það sýndi sig við atkvæðagreiðsluna, að það væri flokksmál hjá honum og hans mönnum. Jeg sagði það síðast, að jeg teldi tillöguna ekki nægilega, ef hún væri ekki einnig samþykt í háttv. Ed. (Sigurður Eggerz: Jeg hefi lýst því, að líka eigi að flytja hana þar.) Jeg skil þá svo, að ef hún fæst samþykt hjer, þá sje það tilætlunin, að bera upp samhljóða tillögu þar, og get þá að því leyti gengið inn á, að þetta sje þinglegt.

Jeg fæ ekki skilið, að það sje holt, að þingið sjálft skipi fyrir um hverjar ráðstafanir skuli gjörðar í þessu efni. Jeg er ekki viss um, að háttv. þingdeild hafi fengið það yfirlit yfir málið, sem nauðsynlegt er, til þess að samþykkja þessa tillögu; því menn verða vel að athuga það, að þetta er framkvæmdarstarf, eða algjörlega »administrativt«, sem stjórnin í samráði við Velferðarnefnd, hlýtur að eiga miklu hægra með að rannsaka og ráða fram úr en háttv. þingdeild, enda ber og stjórninni, en ekki þinginu, að fara með slík störf. Jeg endurtek það, að jeg skil ekki hver nauðsyn hefir borið til þess, frekar nú en í fyrra, að koma með þessa þingsályktunartillögu, nema ef vera skyldi sú, að nú situr önnur stjórn við stýrið. Að hve miklu leyti þessi ástæða á við rök að styðjast, ber mjer ekki að leggja neinn dóm á hjer; það er háttv. þingdeild, sem úrskurðarvaldið á að hafa í því máli.