16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2219 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

99. mál, kornvöruforði

Einar Jónsson:

Jeg á sannast að segja ilt með að skilja í þeirri mótspyrnu, sem þessi þingsályktunartillaga hefir mætt hjer í deildinni hjá ýmsum þingmönnum. Jeg fæ ekki annað sjeð en að tillagan sje nauðsynleg og rjettmæt í alla staði, og það gæti ekki á nokkurn hátt orðið að tjóni, þó að skorað væri á stjórnina að kaupa kornvöruforða til tryggingar því, að matvöruskortur verði eigi í landinu, þó að flutningar teptust síðar. Það má auðvitað vel vera, að svo fari, að menn sjái eftir á, að þessa hefði ekki þurft. En þar sem að hæstv. ráðherra sagði áðan, að hann fengi ekki skilið, að þessi þingsályktunartillaga hefði meiri rjett á sjer nú en í fyrra, þá finst mjer þar til að svara, að þó að eitthvað hafi verið vanrækt í fyrra, þá er enginn ástæða til þess, að vanrækja það í ár, enda hættan á viðskiftateppu við önnur lönd því meiri, sem stríðið stendur lengur. Og þar sem hæstv. ráðherra gefur í skyn, að þessi þingsályktunartillaga muni aðallega sprottin af pólitískum illvilja í garð núverandi stjórnar, þá skil jeg ekki hvers vegna hann heldur þessu fram, þar sem heimild sú, sem þingið veitir stjórninni til ráðstafana og framkvæmda, vegna stríðsins, verður með þessu að eins rýmri en ella, og getur því fremur álitist traust, en illvilji í garð stjórnarinnar.

Jeg er algjörlega samþykkur háttv. flutningsm. (S. E.), að það getur aldrei skaðað, að gjöra þessar ráðstafanir. Það má vera, eins og jeg sagði áðan, að það komi á daginn, að þessa hefði ekki þurft með, og jeg vildi óska þess, en hver er sá af okkur, sem er fær um fyrir fram að benda á þá einu rjettu leið, til þess að stilla og koma í veg fyrir allskonar vandræði, sem af styrjöldinni kann að stafa, áður lýkur. Jeg treysti mjer að minsta kosti ekki til þess, og svo mun fara um flesta. Í svona tilfellum verða menn því að eins að gjöra það, sem þeir sjá hyggilegast í svipinn. Meira er ekki hægt að gjöra.

Það, sem mjer þykir helst að tillögunni, er það, að mjer þykir fjárupphæðin, sem farið er fram á að veita til þessarar tryggingar, of lítil. Jeg hefði ekki verið því mótfallinn, að hún væri hærri. Því að ef athugað er, hve mikið fæst fyrir þessa upphæð, þá mundi láta nærri, að það myndi nægja, til þess að birgja Reykjavík eina með að eins örfáar kornvörutegundir, og meira ekki. Jeg álít því, að upphæðin samsvari tæpast þörfinni, sem á daga gæti drifið, en álit það samt betra en ekki neitt.

Jeg álít tillöguna skynsamlega, eins og jeg áður hefi tekið fram. Því þótt jeg vantreysti ekki stjórninni til hins besta í þessu efni, þá álít jeg þó, að þingið gjöri ætíð rjettast í því, hve góð sem stjórnin og meðráðamenn hennar kynnu að vera, að setja ekki alt sitt traust til hennar í lausu lofti.