16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

99. mál, kornvöruforði

Flutnm. (Sigurður Eggerz):

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hefir nú haldið langa ræðu í þessu máli, og jeg býst við, að öllum, sem á þá ræðu hafa hlýtt, hafi skilist, að aðalefnið var það, að þingm. (S. B.) var að verja sínar særðu tilfinningar. (Sveinn Björnsson: Jeg er dauður). Það er nú gott og blessað að vísa til þess. En til er sú kenning, að þeir sem hafa lifað illa, verði að líða fyrir það, þegar þeir eru dauðir. Hvort hún hefir við rök að styðjast, læt jeg ósagt. En hvað sem því líður skal jeg lofa því, að fara svo vægilega með háttv. þm. (S. B.) sem jeg get. Honum er óhætt að vera inni þess vegna.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sagði, að þessi tillaga væri óskýr. Hvar er óskýrleikinn, má jeg spyrja? Það er skorað á landsstjórnina að kaupa korn fyrir ½ milj. kr. Það er ákveðin upphæð, og það er ákveðið, hvað kaupa skal. Hvað á þetta að vera skýrara? Nei, þessi mótbára er hjegóminn einn. Á þeim grundvelli verður ekki ráðist á tillöguna. — Háttv. þm. (S. B.) sagði að till. væri »humbug«. Hvað er »humbug« í tillögunni? Ef hún er »humbug«, þá er það »humbug« að kaupa korn fyrir landið. Því að hún er ekki um annað. En ef það er heppilegt að kaupa kornforða handa landinu, eins og nú stendur á, þá er tillagan líka heppileg. (Sveinn Björnsson: Jeg sagði, að það væri »humbug« í kringum till.). Það kann að vera, að nú sje »humbug« í kring um flutnm. hennar, (Sveinn Björnsson: Eða það.), en það er alls ekki í kringum tillöguna sjálfa.

Háttv. þingmaður (S. B.) sagði, að það væri svo ákaflega margt, sem þyrfti að kaupa, til þess að tryggja landið, ekki að eins korn, heldur líka kol, olíu, salt o. s. frv. Og því þótti honum einkennilegt, að í tillögunni er að eins nefnt korn. Þetta þarf honum ekki að þykja undarlegt, því ef það er margt, sem þarf að kaupa, þá er það ekki verra að byrja einhverstaðar. Og ekki skilst mjer það vera fjarstæða, að byrja einmitt á þeirri vörunni, sem nauðsynlegust er, til þess að koma í veg fyrir hungursneyð í landinu. Ef það er »humbug« að firra landsfólkið hungri, þá má flest nefnast því nafni, og þá er jeg hræddur um, að háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sje sjálfur nálægt því að vera »humbug«.

Háttv. þm. (S. B.) sagði, að mjer hefði ekki dottið í hug að minnast á kol og olíu í þessu sambandi. En í framsöguræðu minni lagði jeg einmitt áherslu á kolaspursmálið. Jeg sagði, meðal annars, að reynsla síðasta árs hefði sýnt það, hversu mikla þýðingu það hefði haft, bæði fyrir togaraútgjörðina og siglingar til landsins, að kolin væru keypt á landssjóðs kostnað. Og jeg bætti því við, að þar sem stjórnin hefði fyrir sjer þessa reynslu frá fyrra ári, þá mundi hún telja sjer skylt að ýta á kolamálið. Í rauninni hefði mátt búast við því, að stjórnin hefði þegar gjört einhverjar ráðstafanir í þá átt. Sömuleiðis mintist jeg á steinolíuna. Þessi ummæli háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) geta því ekki verið sprottin af öðru en því, að hann hefir ekki gefið sjer tíma til að hlusta á framsöguræðu mína.

Háttv. þm. (S. B.) talaði um — eins og þegar önnur þingsályktunartill. var hjer til meðferðar í deildinni — að þessi tillaga væri rædd hjer dag eftir dag og með því sóað stórfje og eytt dýrmætum tíma. Hann hefir þá gleymt ástæðunum til þess, að tillagan var ekki útrædd um daginn. Hann hefir gleymt því, að það var fyrir þá sök, að hann sjálfur og hæstv. ráðherra þurftu að bregða sjer í skemtiferð austur í sveitir. Vegna þess tók hæstv. forseti málið út af dagskrá, þó að flutningsmaður hennar mótmælti því. Jeg hefi svo sem ekkert við það að athuga, að jafnmiklir menn ljetti sjer dálítið upp. En hitt væri gott, að þeir tækju ekki þann tíma til þess, að störf þingsins þyrftu ekki að truflast við það.

Þar sem háttv. þingm. (S. B.) talaði um Sjálfstæðismenn í þessu sambandi, og þóttist hafa ástæðu til þess út af ummælum mínum, þá skal jeg minna hann á, hvernig orð mín fjellu. Það kemur leiðinlega oft fyrir, að þessi háttv. þingm. (S. B.) tekur skakt eftir. Honum heyrist stundum alt annað en það, sem sagt er, og svo gjörir hann stóra árás á misheyrnina. Það, sem jeg sagði, var það, að jeg hefði alls ekki borið þetta mál undir Sjálfstæðisflokkinn, með því jeg hefði álitið, að honum kæmi það ekkert við sem flokki. Þetta mál ætti að standa langt utan og ofan við alla flokkapólitík. En svo sagði jeg um leið, að jeg gengi út frá því sem sjálfsögðu, að menn Sjálfstæðisflokksins mundu greiða tillögunni atkvæði, því það mundu allir gjöra, sem væru unnandi sjálfstæði landsins. Og við þetta stend jeg. (Sveinn Björnsson: Ekki er lítið »humbugið«). Háttv. 1. þm Rvk. (S. B.) getur aldrei sannfært deildina nje þjóðina um það, að það sje »humbug« að kaupa korn handa landinu, eins og nú stendur á. (Sveinn Björnsson: Það hefi jeg aldrei sagt). Ef hann getur ekki sýnt fram á það, þá getur hann ekki heldur sýnt fram á, að tillagan sje »humbug«. (Benedikt Sveinsson: Bændunum finst það ekki). Nei, það veit jeg. Þá væri líka íslenskum bændum illa í ætt skotið.

Jeg vona, að tillagan fái góðan byr hjer í háttv. deild, og að hún strandi ekki á óeðlilegum skerjum.