13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

147. mál, rannsókn á kolanámum á Íslandi

Bjarni Jónsson:

Jeg stend að eins upp til þess, að geta þess, að kolarannsóknir eru með öllu óþarfar hjer á landi. Menn vita það til fullnustu, að hjer á landi eru engin kol til, nema surtarbrandskol, og má vel vera, að vel borgi sig að vinna þau, en til þess hefir: nú verið veitt lánsheimild, sem jeg tel alveg rjett. En rannsókn á kolum er alsendis óþörf, eins og öllum jarðfræðingum ber saman um. En ef menn trúa því ekki, getur þingið látið dr. Helga Pjeturss ferðast um landið og senda þinginu skýrslu. En jeg tel ekki þinginu samboðið, að samþykkja þessa tillögu.