13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

147. mál, rannsókn á kolanámum á Íslandi

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi að eins segja örfá orð, ef ljettasóttin kynni að batna háttv. 1. Rvk. (S. B.). Hann reyndi að vjefengja þá skoðun, sem jeg ljet í ljós viðvíkjandi kolunum, en það er nú ekki annað en málaflutningsbragur. Jarðfræðingum kemur raunar ekki saman um aldur landsins og Helgi Pjeturss hefir sýnt fram á, að það væri gamlar íshrannir, sem aðrir kalla eldfjallaösku, en hann segir alveg það sama um kolin sem hinir. Það hefir aldrei verið talað um annað en surtarbrand í þessu landi. Og þó að þm. (S.B.) tali um einhvern leirkendan surtabrand, þá finst mjer það of lítilfjörlegt, til að setja jafn stórt bákn á stað og landsstjórnin er, til að rannsaka það. Jeg held, að það sje alveg nóg, að hann er sjálfur fullur áhuga á því. (Sveinn Björnsson: Mig vantar aura). Ojæja, það er ekki svo dýrt að láta Ásgeir Torfason rannsaka einn fjórðung af grjóti. Það getur hver maður kostað. En að láta stjórnina fara að rannsaka, svona út í bláinn, jafn smávægilegt sem það, hvað námutæki kosta, finst mjer mesta fjarstæða.

Það var ekki annað sem jeg vildi segja.