07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2759)

22. mál, loftskeytastöð í Reykjavík

Ráðherra:

Jeg skal leyfa mjer að taka fram út af síðustu ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), að orð mín mátti ekki skilja svo, sem full vissa væri fengin fyrir því, að útflutningur tækjanna myndi leyfður frá Bretandi, heldur að hlutaðeigandi fjelag hjeldi, að það gæti fengið útflutningsleyfi. Jeg veit það líka, að 10% verðhækkun er engin frágangssök. En jeg veit ekki hvort jeg á að skilja orð háttv. þm. svo, að hann álíti að jeg hafi vanrækt að gjöra skyldu mína í þessu efni. (Sveinn Björnsson: Nei, nei, alls ekki). En mjer var ekki hægt, sökum annríkis, að gjöra meira. T. d. hefði jeg þurft að bera mig saman við landssímastjórann, og hafa hann við höndina.

Út af nefndarálitinu á þingskjali 396 á Alþingi 1914, þá held jeg, að það sje kann ske bygt á misskilningi þeirra, er undir það hafa ritað; þeir skora á stjórnina, að láta reisa loftskeytastöð, sem dragi til Björgvinjar, eða 1400 stikuþúsundir. Það hefði verið mjög æskilegt, að bent hefði verið þar á einhverjar leiðir, til þess að komast að samningi við Stóra Norræna, án mikilla örðugleika. Þeir hafa sjálfsagt haft í huga ákvæðið í ritsímal. 6. gr., en leiðina benti enginn þeirra á. Þrír af þessum mönnum skrifuðu undir álitið fyrirvaralaust, hinir með fyrirvara, og einn þeirra, háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), tók fram, að hann vildi láta stjórnina um það, hvað hún gjörði í málinu. Taldi það heppilegra en að þingið færi þá að skifta sjer af því.

Út af því, að háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) mintist á, að óhentugur tími hefði verið, til þess að sinna þessu í fyrra, þá er það eflaust alveg rjett. En vera má, að þó að svo hafi verið þá, þá sje nú kann ske hentugt að gjöra það, vegna þess, að nú eru hugir manna farnir að sefast og verða rólegri, þar sem í fyrra ríkti eðlileg og almenn bræðsla, vegna stríðsins.