07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

22. mál, loftskeytastöð í Reykjavík

Bjarni Jónsson:

Mjer liggur það í ljettu rúmi, hvert álit stjórnin hefir á störfum nefndarinnar í fyrra, en jeg vil að eins leggja áherslu á þá skoðun hennar, er jeg tók fram í ræðu minni áðan, að við vildum að stöðin yrði reist, án þess að jeg hefði þá hugmynd um hvort hæstv. núverandi ráðherra myndi gjöra verkið, eða vilja gjöra það. Jeg álít sannarlega ekki til mikils mælst, þó að stjórnin spyrðist fyrir um samninga við Stóra Norræna, sem jeg tel víst, að fá mætti, því að svo mikils góðs hefir það fjelag notið í viðskiftum við oss Íslendinga, að illa sæti á því, að vera oss mjög þungt í skauti. En það er rjett hjá hæstv. ráðherra, að jeg vil ekki, að við þurfum að sæta neinum afarkostum í samningum við Dani eða Stóra Norræna. Jeg hefi ekki næg skjöl við höndina, til þess að tala um þetta svo ítarlega, sem æskilegt væri, en jeg býst við að tala um þetta við hæstv. ráðherra undir fjögur augu og sannfæra hann um skoðanir mínar.