10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

143. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Jón Jónsson):

Jeg þakka hæstv. ráðherra fyrir hans greiðu svör og útskýringar. Mjer kom þetta svar bankastjórnarinnar ekki á óvart, því að það hefir löngum verið viðkvæðið hjá henni, að slík stofnun væri ekki framkvæmanleg, og gjöri jeg helst ráð fyrir sama svarinu til eilífðar. Mjer finst, að sparisjóðsfje sje einnig veltufje, og það er stórfje, komið á fimtu miljón króna, og hefir farið stórstígandi síðastliðin ár. Jeg hugsa, að nú sje einmitt tækifæri til þess, að stofna útibúið, og þótt það yrði ekki stórt í byrjun, þá yrði það þó spor í framfaraáttina og gagn fyrir alla Austfirði. Það eru margs konar innlegg, sem koma í bankann, svo hann fær veltufje.

Annars held jeg, að það ráði nokkru, hve smáum augum bankastjórnin lítur á Austfirði. Það er vitaskuld dálítill kostnaður, að koma upp útibúi, en jeg trúi því ekki, að bankastjórinn horfi í þann kostnað. Því þó að það kostaði töluvert í bráðina, mundi það margborgar sig síðarmeir.

Jeg vil leyfa mjer að geta þess, að jeg hefi hjer lítils háttar samanburðarsýnishorn á búpeningi landsins frá árinu 1912.

Búfjenaður 1912:

Nautgr. Hross. Sauðfje.

Suðurland: 10,794 17,433 182,911

Vestufland: 5,772 9,366 122,849

Norðurland: 6,613 14,773 165,857

Austurland: 3,106 4,265 128,584

Á hvern framteljanda:

Nautgr. Hross Sauðfje.

Suðurland: 3,33 5,33 56,00

Vesturland: 2,00 3,30 43,22

Norðurland: 2,00 4,50 50,46

Austurland: 1,61 2,22 47,00

Á þessu sjest, að nautgripir og hross eru tiltölulega fæst á Austurlandi. Á Vesturlandi koma 43 kindur á hvern framteljanda, en 47 á Austurlandi. Sauðfjeð er því langflest á Austurlandi að tiltölu, en jeg gjöri samt ráð fyrir, að ástandið sje líkt á öllu landinu yfirleitt. Vitanlega er mestur arður af sauðfjenu, en naut sjerstaklega gefa þó einnig mikinn arð af sjer, og auðvitað standa stórgripir alt af í sínu verði. Vildi að eins geta þessa, til að drepa á það, að það er ekki rjett, að berja því við, að Austfirðingum sje ekki trúandi fyrir fje. Þó að eitt kaupfjelag hafi farið um koll, þá sannar það, út af fyrir sig, ekkert um ástæður manna yfirleitt þar eystra. Annars vildi jeg mælast til þess, að háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) ljeti í ljós sína skoðun á málinu. Jeg býst við að bankastjórnin sjái einhvern veg nú. Jeg vil geta þess, að mjer finst landsstjórnin hafa gjört minna en skyldi. Hún átti að ýta undir bankastjórnina, en það hefir hún alls ekki gjört, að eins beiðst umsagnar hennar, og svo málið þar með úr sögunni.