10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

143. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Björn Kristjánsson:

Jeg ætla að tala nokkur orð, af því að fyrirspyrj. (J. J.) mæltist til þess, enda þótt að jeg hafi litlu að bæta við það, sem þegar er fram komið í málinu. Bankastjórnin hefir skýrt landsstjórninni frá hag bankans, og jafnframt tekið það fram, að hún teldi það óráð fyrir bankann, að stofnað yrði útibú að svo komnu máli, nema veltufje bankans yrði aukið; því þegar stofna á banka, verður að vera eitthvað annað fyrir hendi en tómt lánsfje, sem taka má út hve nær sem eigandi vill.

Eins og brjef Landsbankans til landsstjórnarinnar sýnir, er veltufje bankans nú 750 þúsundir í seðlum og auk þess 2 miljónir í lánsfje, sem bankinn verður þó að greiða 4½% vexti af. En nú standa 1 miljón krónur fastar hjá útibúunum og 750 þúsundir í verðbrjefum og 20 % af sparisjóðsinnlögum verður að standa í verðbjefum. Alt hið sama veltufjeð er þá hjá útibúunum, og það sjer hver maður, að lítil meining er í því, að skilja aðalbankann eftir veltufjárlausan. Bankinn getur þess vegna ekki lagt þriðja útibúinu til veltufje, nema því að eins, að hann fái viðbótarrekstursfje, sem þá væri óafturkræft. Ef að t. d. landssjóður legði fram 300 þúsund krónur, mundi bankinn geta lagt til það, sem á vantaði. En að kippa burtu fje hjeðan, í eins mikla viðskiftaþörf og er á Akureyri og Ísafirði, þá er bankinn ekki megnugur þess. Annars hefir bankinn ekki nema hlaupandi fje, sem kemur annan daginn og fer hinn.

Því fer fjarri, að jeg óttist að Austfirðingar reynist verri viðskiftamenn en aðrir landsmenn. En þess ber að gæta, að til þess stofna útibú þarf alt að ½ milj. kr. Þau borga sig ekki, nema þau hafi í minsta lagi ½ milj. króna veltufje.

Svar okkar er skrifað í febrúarmánuði og miðað við ástandið eins og það var þá. Það er yfirleitt ilt og erfitt að stofna útibú meðan styrjöldin stendur yfir, og veitir ekki af að fara sem varlegast að öllu. Útibúin borga sig ekki, þó að þau virðist bera sig á pappírnum, en það er af því, að bankinn reiknar þeim ekki fulla rentu fyrir veltufjeð. Og bankinn má ekki verða fyrir miklum halla, ef hann á að njóta trausts í útlöndum, og ef lánstraust bankans minkar, þá er það þjóðartap.

Jeg held fast við það, sem stendur í brjefi bankastjórnarinnar til stjórnarráðsins, að bankastjórnina vantar ekki viljann, heldur fje.