10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

143. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Sigurður Eggerz:

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að jeg tel óskir Austfirðinga um útibú þar mjög eðlilegar og mjer virðist rjett, að taka þær til greina eins fljótt og auðið er. En hitt þótti mjer eðlilegt, að í byrjun stríðsins færi Landsbankinn hægt í þetta mál, þar sem óvissan var þá svo mikil um hvaða áhrif stríðið mundi hafa á öll viðskifti vor, enda munum vjer allir sammála um, að ýmsar ráðstafanir, sem sjálfsagðar má telja á friðartímum, verða að tefjast, þegar óvissan, sem stríðið skapar, stendur nálega í hverju horni.

Jeg er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um það, að hæpið sje, að stjórnin geti skipað Landsbankanum, að stofna útibú, en þegar sú er orðin niðurstaðan, þá er það sýnilegt, að stjórnin gat ekki gjört annað en það, sem hún gjörði, að rita bankanum um málið samkvæmt þingsályktunartillögunni.

Jeg læt þess getið, að sams konar beiðni kom frá mönnum austanfjalls, um að stofna útibú á Eyrarbakka eða Stokkseyri. Jeg bar það mál undir bankastjórnina, en hún vildi ekki heldur verða við þeirri beiðni.

Jeg er þakklátur hæstv. ráðh. fyrir það svar, sem hann hefir gefið, og jeg get ekki kannast við, að jeg hafi vanrækt neitt í þessu máli, og vona að háttvirt deild verði mjer sammála um það, og háttv. fyrirspyrjandi (J. J.) hlýtur að verða mjer sammála um þetta, er hann hugsar málið í næði.