10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

143. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Jón Jónsson):

Þau orð mín, að stjórnin hefði eigi gjört þær ráðstafanir, sem henni bar, áttu ekki við núverandi ráðherra. Það var ekki við því að búast, að hann hefði gjört neitt, nýkominn til valda, auk þess sem hann hefir haft í mörgu öðru að snúast. Jeg beindi orðum mínum aðallega til fyrrv. ráðherra (S. E.), sem var við völd, þegar þingsályktunartillagan var samþykt. Hún hljóðaði svo:

Neðri deild Alþingis ályktar, að skora á landsstjórnina, að hlutast til um, að samkvæmt fyrirmælum laga um stofnun Landsbanka 18. 1885 og laga um breyting á nefndum lögum nr. 28, 22. okt. 1912, verði ekki lengur dregið að koma á fót útibúi frá Landsbankanum á Austurlandi.

Hjer er skorað á stjórnina, að hlutast til um það, að stofnað verði útibú á Austurlandi, og má skoða þessa áskorun þannig, að þingið hafi ætlast til, að stjórnin sýndi rögg af sjer og hvetti bankastjórnina til að koma því á laggirnar.

Jeg get ekki skrifað undir það með háttv. 1, þm. G.-K. (B. K.), að bankinn geti ekki sett útibúið á stofn. Það er rangt hjá honum, að sparisjóðsfje sje ekki veltufje. Jeg er hjer ekki að tala um það fje, sem stendur á hlaupareikningi í bankanum. Það er valt að treysta á það. Það getur verið tekið út hve nær sem er. En reynsla er fengin fyrir því, að sparisjóðsfje er ekki tekið út svo, að það minki og aukist á víxl, heldur vex það alt af og er nú svo mikið, að jeg get ekki skilið, að bankinn hefði ekki getað stofnað útibúið. Sparisjóðsfje hefir vaxið um ½ miljón á 6 mánuðum, síðan um nýár, og það fje nægir fyllilega, að skoðun bankastjórnarinnar, til að stofna útibú. Jeg hygg, að útibúið gæti orðið að gagni þótt veltufje þess væri ekki nema 300 þús. krónur. Ef hagur bankans batnaði síðar, er alt af hægt að bæta við, ef þörfin krefur.

Mjer virðist mótstaða bankastjórnarinnar gegn því, að stofna útibúið, vera nokkuð út í hött. Það er hægt að sýna með tölum, að bankinn hefir hundruð þúsunda, sem hann gæti notað til stofnunar útibúsins. Auk seðlanna, lánsfjárins, innskotsfjár landssjóðs, sparisjóðsinnlaga og innlaga gegn viðtökuskírteinum eru og ávaxtaðir ýmsir sjóðir í bankanum, svo að fje hrúgast nú að honum ár frá ári.

Jeg get vel skilið, að það sje þægilegra, að hafa alt fjeð hjer, en bankastjórnin verður að sýna öðrum landshlutum sæmilega sanngirni og greiða fyrir verslun þeirra og viðskiftum.

Út af þessu máli ætla jeg að bera fram svolátandi rökstudda dagskrá:

Með skírskotun til ályktunar Alþingis 1914, um stofnun útibús á Austurlandi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá, og æski þess, að deildin samþykki hana. Hún er alveg í samræmi við þingsályktunartillöguna í fyrra, en engin ástæða til að ætla, að menn hafi skift um skoðun síðan.