04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Framsögumaður (Magn. Pjetursson) :

Það hefir safnast svo mikið fyrir af alls konar ummælum til nefndarinnar, að jeg get ekki stilt mig um að svara strax nokkrum orðum.

Skal jeg þá fyrst byrja á því, sem fjárlaganefnd hefir verið til áfellis fundið. Byrja skal þá á 14. grein. Við hana hefir þm. Seyðf. (K. F.), á þingskj. 738, flutt þá breytingartillögu, að hækka laun Lárusar Rist leikfimiskennara. Nefndin leit nú svo á, að háttv. neðri deild hefði farið svo sanngjarnlega í þetta mál, að ekki sje þörf á að fara lengra. Það eru nokkuð margir, er hafa sótt til þingsins um launabætur, og það er ekki gott að gjöra þar upp á milli. En hjer hefir allri sanngirni verið beitt, og nefndin telur eigi frekar þörf. Og svo kemur ef til vill dýrtíðaruppbótin, sem nú er á prjónunum.

Um aðrar brtt. hins háttv. þm. Seyðf. (K. F.) um kennarana, skal jeg taka það fram, að nefndin getur ekki hallast að þessu sinni. Mjer finst þeir ekki verða hart úti, samanborið við aðrar stjettir. Kennararnir fá nú styrk til framhaldskenslu og utanfarar. Læknar t. d. fá utanfararstyrk álíka háan, og jeg hygg, að kennarar þurfi ekki að lifa þar dýrara lífi en þeir. Og auk þess hafa kennararnir framhaldskenslu sína, eða námsskeiðin, og væri það líka gott, t. d. fyrir lækna, að geta rifjað upp fræði sín, og kynst nánar því, sem nýtt er, en eigi fá þeir slíka styrki. En um síðari tillöguna á þingskj. 740 skal jeg geta þess, að nefndin getur vel fallist á orðalag og efni athugasemdarinnar.

Um brtt. á þingskj. 739, styrkinn til Samúels Eggertssonar, skal jeg taka það fram, að nefndin getur ekki fallist á hana. Jeg held að það sje einhver geigur við hana, og ekki rjett að rasa að því, að styrkja þessa uppdrætti. Það er áríðandi, að þessir uppdrættir sjeu vel gjörðir, og jeg vil vekja athygli hinnar háttv. deildar á því, að formælandi styrksins, háttv. þm. Seyðf. (K. F.), tók það margoft fram, að hjer væri að eins um uppkast að ræða. Og það er víst rjett, að þetta er uppkast, — sannkallað uppkast, og það kann að afsaka villur þær, sem þar eru, og jeg vil ekki fara nánar út í, af því að um uppkast er að ræða. En jeg skal taka undir það, að það væri gott og æskilegt, að fá góðan uppdrátt svona lagaðan.

Þá hefir verið haft á móti launatillögu nefndarinnar um Háskólann, og hefir ýmsum þótt nefndin fara þar ekki vel að ráði sínu, og hafa þeir tekið hina dócentana til samanburðar. Má vel vera að svo sje fyrir þá, sem eru vel kunnugir, en eftir þeim upplýsingum, er hún hefir fengið, hefir nefndin gjört það eitt, sem rjett er, hjer um. Það er sagt að dócentinn hafi mikla kenslu, en það er vert að athuga það nánar. Jeg skal til samanburðar, taka hjeraðslæknirinn í Reykjavík; hann hefir margfalt meiri kenslu við Háskólann, og þó fær hann ekki nema 800 krónur fyrir kensluna. Og það hefir enginn af þeim hv. þm., sem bera dócent Sig. Sivertsen svo fyrir brjósti, borið fram tillögu um, að hækka þá upphæð. Hvar er þá sanngirnin, sem þeir hrópa svo mjög um?

Þá hefir mikið verið talað um þá stefnubreytingu, er kæmi frsm um námsstyrkinn. Þar hefir verið talað með og móti, og hæstv. ráðherra tók þar að mestu leyti af mjer ómakið. Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) sagði, að aðsóknin að skólanum hefði aukist fyrir velmegun landsmanna. En ef það er rjett, þá er líka ástæða til, að fella námsstyrkinn niður.

Það er fært fram sem aðalástæða með námsstyrkinum, að ef hann falli niður, þá verði það til þess, að fátækir menn geti eigi gengið þessa braut, og orðið að nýtum borgurum í þjóðfjelaginu. Mjer þykir það mjög undarlegt að heyra, að þessi gamla og úrelta skoðun skuli lifa enn þá, rjett eins og þetta sje eina leiðin til þess, að verða maður með mönnum. Jeg vil segja það, þótt námsstyrkurinn hafi hjálpað mjer til að hreppa þá stöðu er jeg hefi, að jeg tel víst, að mjer hefði getað liðið eins vel eða betur, þó jeg hefði aðra stöðu haft með höndum. Þá sagði háttv. 5. kgk. (G. B.) að fátækra manna börn væru oft efnileg, og því að eins til náms kostuð, að svo væri. Vel má vera, að svo sje oft og einatt, en þó þarf það eigi að vera. Það er oft ekkert annað en fordild — fordild tóm. Það þykir sumum meira í munni, að vera embættismaður en annað. En, sem betur fer, eru tímarnir að breytast um þetta. Það ættu líka margir að vera farnir að sjá, að mentabrautin er ekki bein leið til allsnægta. Um það bera fjárbeiðnirnar og launahækkana beiðnirnar bestan vottinn.

Jeg get tekið undir með ýmsum háttv. þm. um, að gagnfræðaskólinn á Akureyri, verði hart úti, en þar er námsstyrkurinn svo lítill, að nefndinni þótti hann ekki vera til tvískiftanna. Ef honum hefði verið skift, hefði hartnær ekkert orðið eftir, sem gagn gæti að orðið.

Háttv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) vill veita 10 þúsund krónur til barnaskólabygginga. Nefndin getur ekki fallist á það, og ekkert fremur fyrir ástæður þær, er hann færði fram með máli sínu. Jeg sje ekki, að þetta þurfi að gjöra nokkurt verulegt mein. Og víst er um það, að barnaskólabyggingarnar hafa ekki alstaðar komið að tilætluðum notum, fremur en fræðslulögin öll. Jeg þekki stað, þar sem byggt var skólahús fyrir 30 börn. Sveitarbúar hjeldu, að af þessu mundi leiða margt gott fyrir mentunina. En hvernig fór?

Síðastliðinn vetur náðist í 6 börn í skólann. Í vor hjelt fræðslunefndin fund um það, hvort sveitarmenn vildu nota skólann, hve mörg börn yrðu í honum næsta vetur, og árangurinn varð sá, að þau hefðu getað orðið 2–3. Er það harla lítið, og lítil not af nýju, dýru húsi. Svona byggingar mega því sjálfsagt bíða eitthvað eða þola það, þegar þröngur fjárhagur er. Og svo ber einnig að taka tillit til þess, að efniskostnaður er meiri en venjulegt er í meðalári, og því ekki rjett að byggja aðrar byggingar en þær, er brýn þörf er á, eða strax renta sig vel.

Þá skal jeg minnast á brtt. við 15. gr. og sný jeg mjer fyrst að brtt. hv. þm. Barðstr. (H. K.); þær eru töluvert margar, en ekki allar efnismiklar, enda mun nefndin geta fallist á sumar þeirra. Sem betur fer, hefir hv. þm. (H. K.) þegar tekið tvær af brtt. aftur, og þarf jeg því ekki á þær að minnast.

Við brtt. á þgskj. 748 hefir nefndin ekkert að athuga, og ekki heldur þá um stóra stafinn (749). En brtt. á þgskj. 747 getur nefndin ekki aðhyllst. En jeg þarf ekki margt um hana að tala, því að þegar hv. flutnm. (H. K,) var að ræða um hana, þá var hann alt af að hæla manninum, sem hún á við, og sagði um hann það, sem jeg hefði þurft að segja. (H. K.: Þetta er útúrsnúningur). Nefndin álítur manninn hæfan til að vinna verk það, sem honum er ætlað, og telur það þarfaverk, og leggur því til að fjárveitingin fái að standa. Og má jeg spyrja : Hældi hv. þm. ekki manninum? (H. K.: Jú). Jæja, þá er hann sammála nefndinni.

Þá hefir sumum háttv. deildarmönnum verið sárt um, að nefndin leggur til, að styrkurinn til Ág. Bjarnason sje feldur niður, og þykir honum með því vera meinað að koma út því, sem eftir sje af ritverki hans. Það er alls ekki meining fjárlaganefndarinnar, að vilja með þessu fyrirbyggja, að ritið komi út; en hún telur ekki svo bráðnauðsynlegt, að það sje gefið út á næsta fjárhagstímabili, þar sem svo margt kallar nú að, og mörgu nauðsynlegu verður að slá á frest.

Jeg þykist vita, að rit þau, sem hjer ræðir um, muni vera fjöllesin; en um hitt er jeg ekki viss, að svo muni fara sem háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) spáði, að meiri hluti atkvæða mundi falla gegn nefndinni, ef málið væri borið undir þjóðaratkvæði. Það er svo margt, sem margir verða að neita sjer um nú, að jeg gæti vel trúað, að þeir vildu og neita sjer um lestur rits þessa, þangað. til betur áraði.

Háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) var hálfpartinn að fetta fingur út í styrkveitinguna til kvöldskóla Hólmfríðar Árnadóttur. Taldi hann hana óþarfa, af því að svo margir skólar væru hjer í bæ og eigi þörf á þeim fleiri. En þess er að gæta, að skóli hennar er ekki hliðstæður við aðra skóla hjer; honum er t. d. töluvert öðru vísi háttað en kvennaskólanum. Þessi skóli á að hjálpa þeim stúlkum til að afla sjer fræðslu, sem ekki geta varið öllum deginum til þess, heldur að eins tómstundum sínum, sem þær ef til vill notuðu til verri iðju annars, eða slæpingsskapar. Því er hann kvöldskóli og eins konar framhaldsskóli fyrir námfúsar konur, og því eigi minni ástæða til að styrkja hann en unglingaskólana. Verð jeg að telja það mjög þarft verk, að halda uppi slíkum skóla í fjölmenninu hjer í Reykjavík.

Þá þótti háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) það ilt, að nefndin vildi láta falla niður styrkinn til búnaðarfjelaganna; þótti honum, að með því mundi kipt fótum undan búnaðarfjelögunum og þeim framkvæmdum, er sá fjelagsskapur hefir eflt. Nefndin hefir með þessari tillögu sinni enga ákvörðun tekið um það, að hún ætlist til að styrkurinn leggist niður til fulls; þetta er að eins ein af þeim bráðabirgða ráðstöfunum, sem hún taldi nauðsynlegt að gjöra, og gjörlegt að gjöra, eins og nú horfir við. Jeg sje því varla nokkur líkindi til þess, að nokkur fyrirhuguð búnaðarframkvæmd byggist svo mjög á búnaðarstyrknum, að hún muni hrynja um koll, þótt hann hverfi eitt fjárhagstímabil.

Hæstv. ráðherra er ekki við, og mun jeg því að mestu sleppa því, sem hann talaði um. Sumstaðar hlóð hann lofi á nefndina fyrir gjörðir hennar, og þá sjerstaklega það, að hún hefði fylgt stjórninni í tillögum sínum, en sumstaðar vítti hann nefndina einmitt þar, sem hún hafði fylgt skoðun sjálfrar stjórnarinnar, t. d. um þá nafna, Helgana.

Það hefir töluvert verið talað um kolin, og sá liður sætt mótmælum. Jeg lái mönnum síst, þótt þeim þyki málið athugavert, en það skil jeg ekki, að þeim þyki það ekki þess vert, að það sje vendilega rannsakað; því að þó að svo færi, að kolin sjálf reynist ekki svo góð, að það borgaði sig að vinna þau í stórum stíl, þá gætu við rannsóknina fundist önnur verðmæt efni og arðvænleg. Svo er t. d. í Svíþjóð. Þar er á einum stað þunt kolalag, sem eigi borgar sig að vinna til að flytja burt, en undir því hefir fundist eldfastur leir, sem gefur góðan arð. Jeg hefi nýlega talað við ungan jarðfræðing, sem benti mjer á þetta, og taldi ekki ólíklegt, að hjer mundi finnast einhver slík nytsemdarefni í sambandi við kolalögin. Þetta þarf að rannsaka til hlítar.

Einmitt vegna tillögu vorrar í þessu máli, getum vjer ekki fallist á tillögu hv. þm. Barð. (H. K.) um lánsheimild handa einstökum manni; því að fyrst álitum við, að rannsaka þurfi málið, áður en farið er að hætta fje út til einstakra manna. Nefndin hefir ekki heldur fengið svo miklar upplýsingar, að hún geti sagt um, hvað mikil trygging sje í Sjöundárlandi og Stálfjalli og mannvirkjum þar fyrir 25 þúsund kr. láni því, sem fram á er farið að veitt sje.

Að öðru leyti er nefndinni ekkert kunnugt um það, sem hæstv. ráðh. gat um, að von væri á framkvæmdum úr annari átt í þessu máli; hann hefir, mjer vitanlega, ekki skýrt frá því, fyrr en nú, og hefðu þær upplýsingar þó helst átt að liggja fyrir fjárlaganefndinni.

Háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) vildi fá að vita, hve miklar líkur væri fyrir því, að hægt mundi að ná í vatn í Vestmannaeyjum. Að svo stöddu mun enginn geta svarað því, rannsóknin ein getur leyst úr um það. Og hvort sem líkindin eru mikil eða lítil, þá er þörf á rannsókn. Einn maður hefir varið 700 kr. til slíkrar rannsóknar. Hann fann að vísu eigi vatn, en verkfræðingur, sem hann ráðgaðist við, kvað það eigi heldur von, því að eigi mundi nógu djúpt grafið, en maðurinn vildi eigi leggja út í meiri kostnað upp á eigin spýtur. En þótt eigi finnist vatn í jörðu, þá er nauðsyn á að finna einhvern útbúnað, er gjöri vatn eyjarskeggja forsvarsanlegt drykkjar- og matarvatn. Nú sem stendur verða þeir að nota misjafnlega hreint regnvatn, og ekki einu sinni alstaðar nægur útbúnaður til að safna því. Þetta má ekki svo búið standa. Það verður ekki varið, að þorp með um 2000 íbúa eigi framvegis við sömu vatnsvandræðin að búa, án þess landsstjórnin gjöri eitthvað til að reyna að ljetta þeim af.

Háttv. 2. kgk. (Stgr. J.) þótti það hart, að við vildum kippa burt því eina, sem Þingeyjarsýslu var til hagnaðar, sem sje Húsavíkurláninu. Það var engan veginn af því, að fjárlaganefnd væri hið minsta í nöp við Þingeyinga, heldur af því, að svo mörg hliðstæð fyrirtæki því, sem hjer ræðir um, eru nú á dagskrá, fyrirtæki, sem alveg jafnrjettmætt var að styrkja og rafveituna. á Húsavík. Jeg get frætt hv. þm. (Stgr. J.) um, að ef vjer fjellumst á þessa lánveiting, þá megum vjer eiga von á 140,000 kr. lánbeiðni, sem erfitt er að synja um, ef þessi er veitt.

Um lánsheimildina handa Skeiðahreppi er þess að geta, að auk þess, að nefndin fær ekki sjeð, að fje muni fyrir hendi til að veita lánið, þá á nú að veita fje til að gjöra tilraunir um, hvort jökulvatnsáveitur nái tilgangi sinum, og mun hyggilegast, að bíða og sjá, hvernig þeirri tilraun reiðir af, áður en lagt er út í önnur stór áveitufyrirtæki með jökulvatni.