09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Framsm. (Sig. Stefánsson) :

Það er síðar en svo, að jeg vilji ámæla síðasta ræðumanni fyrir það, að hann vill fara varlega með fje landsins. Við erum sammála um það, að varlega beri að fara með fje landssjóðs. Hitt er líka rjett, að rjettara er að ráða ekki þeim málum til lykta, er hafa mikil útgjöld í för með sjer, nema í samráði við fjárlaganefndir þingsins. Þetta mál hefir gengið sinn eðlilega gang. Fjárlaganefnd neðri deildar er kunnugt um það, og hafa víst flestir nefndarmennirnir greitt því atkvæði. Það er aðgætandi, að hingað til hefir landssjóður ekki getað bygt neinar vissar tekjuvonir á sektafje fyrir landhelgibrot; þær tekjur hafa ávalt verið óvissar, og hjer er því ekki um vissan tekjustofn að ræða. Jeg skal ekki um það segja, hvernig meðnefndarmenn mínir líta á dagskrána, sem fram er komin, en jeg fyrir mitt leyti mun ekki leggjast fast á móti henni. Jeg vona, að svo framarlega sem fjárhagshorfur verða ekki því verri, þá verði fjeð til. En það sæti illa á mjer, ef fjárhagshorfur verða slæmar, að hækka fjárframlög landsjóðs þetta ár.