09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Steingrímur Jónsson:

Jeg stend að eins upp til þess, að styðja háttv. 5. kgk. (G.B.) Jeg held jeg þurfi ekki að rökstyðja mikið skoðun okkar, því að það gjörði hann sjálfur. Ræða framsögumanns og brjefið aftan á þgskj. 239 sýna, að það er nauðsynlegt að athuga málið vel.

Jeg var styðjandi málsins í upphafi og er það enn. En athugavert finst mjer, að binda fjárveitingarvald þingsins um aldur og æfi. Í upphafi var ákveðið, að landssjóðstillagið til Landhelgisjóðsins skyldi vera 5000 kr. Nú er ekki lengur farið fram á 5000 kr., heldur mikið meira.

Jeg ætla ekki að ræða þetta mikið meira, því að jeg treysti því, að hin mjög sanngjarna. dagskrá háttv. 5. kgk. þm. verði samþykt. Jeg hygg fulla ástæðu til að bíða þangað til við sjáum, hve miklu fjárlaganefnd neðri deildar hefir úr að spila. Þeir menn, sem í fjárlaganefnd eru, hafa oft ekki tíma til þess að athuga öll smáfrumvörp fyrr en síðustu dagana, þegar allt er uppgjört. Fyrr er því erfitt að vita, hve mikið fje það er, sem þingið hefir úr að spila. Mjer finst því sjálfsagt, að háttv. deild biði eftir nefndaráliti frá fjárlaganefnd neðri deildar, áður en hún samþykkir þetta frumvarp.