09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Kristinn Daníelsson:

Jeg tel það vafalaust, að dagskráin, sem fram er komin, sje ekki á móti þingsköpunum. Annars mundi jeg hafa mótmælt henni. Ef þörf væri á nokkrum fresti, mundi jeg þó fella mig betur við uppástungu háttv. framsm., heldur en dagskrá háttv. 5. kgk. þm. (G. B.). Framsögumaður ætlast að eins til venjulegrar frestunar, í 1–2 daga, til þessað nefndin geti athugað tillögur og athugasemdir þær, sem fram hafa komið. Jeg held því fram, að málið sje svo mikilsvert, að það eigi ekki neitt að hika við það. Það hefir nógsamlega verið sýnt fram á og Alþingi viðurkent nauðsyn málsins, og jeg vil ekki stofna því í þá hættu, að láta það bíða þess, að kappið komist fyrir alvöru í fjármáladeilurnar. Þær eru oft harðar og þá ekki fyrirsjáanlegt, hvaða málið kann að hafa betur; það eru ekki ætíð þau, sem helst skyldi.

Eins og háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) tók fram, sjest það á brjefi skrifstofustjórans, að landssjóður skuldar nú landhelgissjóðnum 46 þús. kr., og er borið fram, að landssjóður hafi ekki enn getað borgað það. En hjer var ekki að tala um að borga. Þetta fje greiddist Landhelgissjóðnum sjálfum og átti að standa á vöxtum fyrir hann. En landssjóður hefir tekið það að láni hjá honum. Jeg sje ekki ástæðu til þess, enda þótt jeg, eins og háttv. frsm., hirði ekki um að víta stjórnina fyrir það. En jeg sje ekki að einar 46 þús. kr. hefðu átt að geta valdið landssjóði vandræðum. Hana gat tekið bráðabirgðalán; jeg trúi ekki öðru en að það hefði fengist einhversstaðar annarsstaðar og landssjóður greitt sína vexti af því, en Landhelgissjóður notið vaxtanna af sínu fje.

Jeg vil því helst ekkert fresta málinu, að minsta kosti ekki lengri frest en eftir tillögu háttv. framsögumanns, að það væri í þetta sinn tekið út af dagskrá.