17.08.1915
Efri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Steingrímur Jónsson:

Jeg á litla breytingartillögu á þgskj. 368, og gjöri jeg ráð fyrir, að engum komi hún á óvart, eftir ummælum mínum við 2. umræðu málsins. Jeg tók það þá fram, að jeg hafi alt af verið hlyntur stofnun þessa sjóðs, þannig, að sektirnar rynnu í hann samkvæmt því, sem ákveðið var 1913. En mjer fanst óþarfi að ganga lengra. Það var nóg að geyma þetta fje þangað til við sæum okkur fært, að taka landhelgisvarnirnar algjörlega í okkar hendur.

Ástæðurnar til þessa eru tvær. Það er fyrst og fremst afar óheppilegt, að binda fyrirfram það fje, sem þingið hefir til umráða, og taka á þann hátt fram fyrir hendurnar á fjárveitingarvaldinu.

Jeg skal í stuttu máli benda á, hversu langt við erum nú þegar komnir inn á þá braut. Við erum búnir að leggja stórfje í sjerstaka sjóði, og skal jeg nefna þessa: Styrktarsjóður barnakennara 2500 kr., Fiskveiðasj. 6000 kr., Landhelgissj. 5000 kr., Byggingasj. 7500 kr., Bjargráðasj. 22000 kr., Ellistyrktarsj. 20000 kr., Landsbankinn 100 000 kr., því að það er fje, sem líta má á, sem sje það lagt í sjóð. Þetta er samtals 163,000 kr., og nú á að bæta við það 15000 kr., og verður fúlgan þá 178000 kr. á ári. Með öðrum orðum, nærfelt 10% af fje því, sem þingið á að hafa til umráða, er fyrirfram bundið. Auk þessa eru önnur bönd og aðrar kvaðir, sem á þinginu hvíla. Jeg býst þess vegna við, að það sjeu fleiri en jeg, sem líta svo á, sem þetta sje hættuleg braut. Og þó þetta væri ekki tekið til greina, sem jeg nú hefi skýrt frá, þá vill svo til, að það er til önnur mikilvæg ástæða fyrir máli mínu.

Eins og menn muna, þá var mál þetta tekið út af dagskrá; um daginn, og því frestað. Síðan hafa háttv. deildarmenn átt kost á því, að kynna sjer nefndarálit háttv. fjárlaganefndar neðri deildar og þær niðurstöður, sem hún hefir komist að. Þar má sjá margt næsta nýstárlegt og afar þýðingarmikið, ef vel er athugað. Og það er skylda okkar að athuga alt sem gaumgæfilegast, ef við viljum fara vel með það pund, sem okkur er trúað fyrir.

Eins og menn vita, þá var gjört ráð fyrir 130 000 kr. tekjuhalla í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar, sem lagt var fyrir þingið. Eftir því, sem jeg þykist sjá af nefndaráliti fjárlaganefndarinnar, þá hefir hún talið það eitt aðalhlutverk sitt, að afmá eða minka þennan tekjuhalla. Þetta er mjög eðlilegt, að nefndin skyldi líta svona á starf sitt, en hitt var erfiðara að sjá, hvernig þessu yrði við komið, sjerstaklega fyrir þá sök, að nefndin gat ekki, sökum ófriðarins, fyllilega bygt á þeim tekjum, sem annars hefðu verið taldar sjálfsagðar.

En vjer skulum nú athuga, hvernig nefndin leit á að þetta gæti orðið, og hverjum höndum hún tekur á fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar.

Nefndin hefir, í fyrsta lagi, reynt að klípa af ýmsum fjárupphæðum, sem annars skifta litlu máli. Það er fyrst, er komið er að 13, gr. fjárlaganna, að upphæðirnar fara að nema nokkru. Nefndin hefir talið sjer skylt, að lækka útgjöldin til akbrauta og þjóðvega um 57 þúsund kr. Nefndin ætlast enn fremur ekki til, að bygð sje nema ein ómerkileg brú, sem á að kosta 25 þús., en það hefir jafnan verið talin skylda, að byggja að minsta kosti eina stóra brú á fjárhagstímabili. En meira hefir nefndin ekki sjeð fært að gjöra í þetta sinn, og er þó, eins og kunngt er, ekki enn farið að róta við Eyjafjarðarárbrú, nje við brúnni á Jökulsá á Sólheimasandi, og er þó sama sem búið að lofa þeim báðum fyrir löngu. Jeg lasta þetta ekki, því jeg veit að brýn nauðsyn hefir knúð nefndina til að sleppa þessu, þó vissulega sje það hart aðgöngu.

Þá komum við að öðru atriði. Það eru vitarnir. Það hefir jafnan verið litið svo á, að þar sem vjer tókum mjög hátt vitagjald af skipum, þá verðum vjer að hafa vitana sem flesta og sem fullkomnasta. Enda væri ekkert réttlæti í öðru. Í samræmi við þetta er gjört ráð fyrir í fjárlagafrv., að 5 vitar verði reistir á fjárhagstímabilinu. Fjárlaganefndin leggur aftur á móti til, að ekki verði reistur nema einn viti. Þetta er óneitanlega hart gagnvart siglingum vorum, og það er engu síður hart gagnvart vitafyrirkomulaginu sjálfu. Eins og kunnugt er, þá höfum við orðið að setja á stofn embætti, umsjónarmann vitanna og aðstoðarmann hans, og eru goldnar til þess 6500 kr. En nú er fyrir það girt, að þeir geti gegnt því starfi sínu, eins og til var ætlast, þar sem ekki á að reisa nema Straumnesvitann einan. Þetta er eitt beiska atriðið, sem nauðsynin hefir krafist af fjárlaganefnd Nd.

Þá komum við að 14. gr., þar sem ræðir um fræðslu- og kenslumál. Þar er einn liður, sem fjárlaganefndin hefir álitið nauðsyn bera til að strika alveg burt. Það er árveitingin til þess að byggja barnaskóla. Eftir fræðslulögunum er það skylda að byggja barnaskóla, en nú leggur nefndin til, að allri upphæðinni, 30. þús. kr., sje slept. Lagaskuldbindingu landssjóðs er þar með varpað burt, þar sem álitið er að mögulegt sje að komast af, án þess að hún sje uppfylt. Og verður því þó ekki mótmælt, að þetta er ranglátt gagnvart mörgum fræðsluhjeruðum landsins, þar sem fjarri fer því, að alstaðar sje viðunandi skólahús. En það er ekki um það að fást; þetta varð að gjöra.

Þá er 16, gr. Í henni ætla jeg einungis að stikla á stærri upphæðunum. Svo er til ætlast, að styrkurinn til búnaðarfjelaganna, 22. þús. kr. hvort árið, sje feldur í burtu. Nefndin lítur svo á, að landbúnaðurinn standi nú svo vel að vígi, þar sem afurðir hans allar eru í svo háu verði, að hann geti mist styrkinn.. En þess er þó að gæta, að með því að lækka þetta alt í einu, þá er kipt burtu lyftistönginni, sem öll búnaðarsambönd landsins hvíla á, og er það síður en ekki hættulaust, að raska þessu svona alt í einu. Má í því sambandi minna á, að nú hafa verið gjörðar nýjar og sjerstakar kröfur fyrir styrk fyrir jarðabætur, en nú verður það líkast til alt að detta niður. Með öllum þessum breytingum, hefir fjárlaganefndinni tekist að minka tekjuhallann um 20 þús. kr., koma honum niður í ca. 110 þús. kr. Og til þess að komast nær markinu, hefir nefndin lagt til, að samþykt verði, að stjórninni verði veitt heimild til þess, að fresta símalagningum, en til þeirra eru í frv. ætlaðar 78500 kr. En eins og kunnugt er, þá hefir síminn gefið góðan tekjuafgang, og er svo fyrir mælt í símalögunum, að halda skuli áfram að leggja síma, þangað til loforðum öllum um símalagningar sje fullnægt. Auðvitað er það skuldbinding, sem kippa má í burtu, en það er líkt því, sem að skera bestu kúna á básnum í matarþröng. Það er hart, að þurfa að hætta við að bæta símakerfið, sem vitanlega gefur alt af því meira af sjer, sem það verður fullkomnara, og nota í þess stað fjeð til annara þarfa. En þrátt fyrir alt þetta er ekki hægt að ná tekjuhallanum alveg í burtu, og auk þessa eru ótal kröfur, sem kostnað hafa í för með sjer. Má til dæmis minna á, að nú er hjer á ferðinni í deildinni frv. til laga um hafnargjörð í Vestmannaeyjum, sem hlýtur að verða mjög kostnaðarsöm, því að ekki verður hætt við þá höfn hjeðan af, fyrst byrjað er á henni.

Og nú kemur fram tillaga, um að efna enn til nýrra útgjalda, í talsvert óákveðnu augnamiði, og sem ekki mun koma að gagni fyrr en einhverntíma í framtíðinni. Þetta finst mjer vera mjög óheppileg fjármálapólitík, og naumast forsvaranleg. Mjer finst fátt benda til þess, að þessi tillaga færi oss nær miklu takmarki voru, því að þetta mál getur ekki komið til framkvæmda nú fyrst um sinn. Auk þess má benda á, að ekki er líklegt, að mikil þörf verði á þessu fyrst eftir ófriðinn, því að erlend fiskiskip munu þá naumast sækja hingað mikið. Eins og jeg benti á við aðra umræðu málsins, þá er ekki líklegt að oss skorti fje, er við þurfum verulega til að taka í þessu máli. En eins og nú stendur á, þá vantar okkur fje til þarfa vorra í dag og á morgun, og er því lítil ástæða til að fara nú að leggja út í það, sem virðist vera óvissan ein. Mjer finst því hyggilegt, að fresta þessum 15 þús. kr. tillagi landssjóðs í næstu 2 ár. 1918 má búast við að ófriðurinn verði úti og sárin tekin að gróa, og má þá taka til óspiltra málanna, enda. getur ekki til framkvæmda komið í því máli fyrir þann tíma. Við getum ekki á neinn hátt verið undir það búnir.

Af þessum ástæðum öllum vona jeg að háttv. deild samþykki brtt. mína.