17.08.1915
Efri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Steingrímur Jónsson:

Háttv. framsögumaður (S. St.) sagði þegar hann stóð upp, að hann ætlaði ekki að halda langa ræðu, en þó varð hann álíka langorður sem jeg. Samt sem áður svaraði hann alls ekki þeirri spurningu, sem var meginatriðið í mínu máli. Hvers vegna eigum við að neita um bráðnauðsynlegar fjárveitingar, en leggja í þess stað fje í þennan sjóð? Hvers vegna eigum við að láta svo óðslega með framlög í þenna sjóð, en neita svo búnaðarfjelögum um styrk og og hætta að leggja fram fje til barnaskólahúsa, vita og síma? Jeg veit að vísu að við kollsteypumst ekki fyrir þessar 15 þús. kr., en jeg verð að játa, að slík fjármálapólitík stórhneykslar mig og er í sjálfu sjer hálfgjört fikt. — Það er satt, að fjárlaganefnd háttv. Nd. hefir verið spurð um, hvort hún teldi nauðsyn á að fresta þessari fjárveitingu, og hefir meiri hluti nefndarinnar svarað þeirri spurningu neitandi. Jeg vissi að háttv. framsögumaður (S. St.) skýrði rjett frá þessu, enda hefi jeg ekki vjefengt það. En það haggar ekki minni skoðun á þessu máli. Það er hverju orði sannara, að það er góður búskapur að leggja fje til hliðar, að eins ef það fje er ekki tekið frá bráðnauðsynlegum fyrirtækjum. Við þekkjum allir maurapúkana, sem hrúga saman krónunum, en níða niður jarðirnar, sem þeir búa á, og munu fæstir vitibornir menn vilja taka þá til fyrirmyndar. Og jeg verð að halda því fram að hagur landssjóðs sje ekki slíkur nú sem stendur, að við getum lagt þessar 15 þúsundir til hliðar, án þess að það komi tilfinnanlega niður á þörfum fyrirtækjum.

Háttv. framsögumaður (S. St.) mintist á Ræktunarsjóðinn, en sá samanburður var villandi. Þegar sá sjóður var settur á stofn var tekinn til þess viss hluti af viðalaga• sjóðnum, en ekkert fje lagt beinlínis úr landssjóði. Og jeg hygg, að á þeirri ráðstöfun hafi landssjóður beinlínis grætt, því að eftir það hefir jafnan verið miklu betri regla og stefnufesta í öllum bitlingaveitingum til landbúnaðarins.

Það getur verið satt hjá háttv. framsögumanni (S. St.), að fje verði ekki fyrir hendi, þegar vjer á sínum tíma viljum taka að oss strandvarnirnar. En nú sem stendur vantar fje til svo margs annars. — Jeg vona að það hafi ekki átt að vera sneið til mín, er háttv. framsögumaður (S. St.) sagði og lagði áherslu á, að hjer væri að ræða um framlag til sjávarútvegsins. Jeg veit ekki til þess, að jeg nokkru sinni hafi viljað skóinn niður af sjávarútveginum, enda veit jeg ekki betur en að sá atvinnuvegur hafi fengið ríflegar fjárveitingar á síðustu þingum, og svo mun einnig verða á þessu þingi. Jeg vil að eins minna á styrkinn til Fiskifjelags Íslands, á brimbrjótinn í Bolungarvík og höfnina í Vestmannaeyjum.

Það var illa til fundið hjá háttv. framsögumanni (S. St.), er hann skaut því fram, að hann sæi ekkert á móti því, þótt einhver fjárveiting til vegabóta fjelli, og þessi fjárveiting fengi fram að ganga í staðinn. Mjer virðist þvert á móti sjálfsagt, að einhver önnur framlög til sjávarútvegsins hljóti að rýrast, ef þessi fjárveiting verður samþykt. Vegina verður að halda áfram með, hvað sem öðru líður. Það er hörmulegt menningarleysi hvað óvíða er hægt að nota vagna og hjól hjer á landi, og verður sú tímatöf, sem af því hlýst, ekki metin til peningaverðs. Það væri því mjög illa farið, ef þessi fjárveiting, sem er ekki annað en fikt út í loftið, bitnaði á vegakafla fjárlaganna: