17.08.1915
Efri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

12. mál, landhelgissjóður Íslands

Guðmundur Björnson:

Það er einn stór meinbugur á þessu máli, sem jeg vil minnast á, áður en það verður afgreitt hjeðan úr deildinni. Það mætti ætla, þegar rætt er um þarfir sjávarútvegsins, þá vissi Fiskifjelag Íslands best hvar skórinn: kreppir. En frá því fjelagi hefir ekki komið nein ósk um þá fjárveitingu, sem hjer er verið að tala um. Hins vegar hefir fjelagið óskað, að skipuð væri milliþinganefnd, til þess að rannsaka slysfarir á sjó og slysatrygging. Þar kreppir skórinn fastast. En hvað gjörir svo Alþingi? Það skellir skolleyrum við þessari sanngjörnu og skynsamlegu málaleitun Fiskifjelagsins, en vill óbeðið leggja fram fje til landhelgisvarna einhvern tíma í framtíðinni! Þetta kalla jeg meinbugi. Bændur vilja grípa fram fyrir hendur sjómanna og hafa vit fyrir þeim um þarfir sjávarútvegsins. — Það kalla jeg leikaraskap! Það er einn þátturinn úr þeim hörmulega skrípaleik, sem nú um nokkur ár hefir verið leikinn hjer á landi, og innblásinn er af sjálfstæðisgorgeir en ekki sjálfstæðisþrá. Þess vegna óskaði jeg um daginn, að þessu máli yrði frestað, og þess vegna mun jeg greiða atkvæði með brtt. háttv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.).