09.08.1915
Efri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

77. mál, vatnsveita

Framsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg þarf ekki að endurtaka það, sem jeg sagði um þetta mál við 1. umr., og sem við átti við þá umr., að taka alment fram um tilgang frumvarpsins. Nefnd sú, sem kosin var til að athuga þetta mál, er öll sammála um, að sá tilgangur sje góður, og sú viðbót við vatnsveitulögin, sem hjer er farið fram á, horfi til bóta, ef hún verður að lögum. Aðalhlutverk nefndarinnar hefir verið að athuga hvort lögin um vatnsveitu gætu átt við, þegar brunnar væru grafnir til almenningsnota, og hún hefir komist að þeirri niðurstöðu, að þau gætu þá átt við að öllu leyti. Eins og nefndarálitið ber með sjer, tók nefndin sjerstaklega til íhugunar, hvort ástæða væri til að undanþiggja skatti þau hús, sem hafa fyrir fram og nota brunna heima hjá sjer, áður en slíku almennu fyrirtæki væri komið á. Nefndinni þótti að vísu nokkur sanngirni mæla með því, en þó sýndist okkur ekki ástæða til, að eigendur þessara húsa slyppu algjörlega við að styðja fyrirtæki, sem er til nytsemdar fyrir kauptúnið og borgara þess í heild, og öllum þá eðlilega skylt að standast kostnað af, ekki síst þegar hann er lítill, eins og hjer, í samanburði við það, er um vatnsveitu er að ræða. En þeirri lækkun á skattinum, sem sanngjarnt er að veita, ættu sveitastjórnir að geta komið að með þeirri flokkun á skattinum og gjaldskránni, sem ráðgjörð er í 5, gr. laganna. Hámark skattsins er í vatnsveitulögunum ákveðið 6%, af virðingarverði húsanna, og ef það nægði ekki fyrir kostnaði, þótti nefndinni, sem fjallaði um vatnsveitulögin 1912, rjett að jafna því niður sem á skorti. Það væri að vísu ekki hægt á þeim stað, sem tilefni hefir gefið til þess, að þetta frumvarp hefir komið fram, þar sem Keflavík er hluti af hreppsfjelagi og kauptúnsbúar yrðu einir að bera þennan kostnað. Enda mun ekki til þess koma, því að okkur hefir talist svo til, að þar mundi þessi skattur ekki nema meiru en 1% eftir skýrslu um virðingarverð húseigna í Keflavík og þeim upplýsingum, sem jeg hafði um kostnað þann, er hjer um ræðir.

Því var skotið til nefndarinnar af utannefndarmanni, að rjett væri að fella burtu orðin: „þar sem ekki er hægt að veita neysluvatni“, vegna þess, að álitamál geti verið, hvað hægt sje og í raun og veru mætti alstaðar veita vatninu til dæmis með dælukrafti, en oftast yrði ókleifur kostn- aður að veita vatni inn í hvert hús á þann hátt, en í hverju einstöku tilfelli yrði það undir dómi og úrskurði sveitastjórnar komið, hvort unt sje að veita vatninu. Nefndinni þykir þó heppilegra að láta þessi orð standa, því að með þeim er bent til, að vatnsveita sje æskilegust, ef unt er að koma henni við. En þegar það er ekki unt, þá sje alt af heimild til að gjöra brunna.

Nefndinni hefir borist brjef frá stjórnarráðinu, og fylgir með því brjef frá verkfræðingi. Gjörir það svipaðar athugasemdir og þetta. Nefndin hefir að vísu ekki athugað brjefið nákvæmlega, en hefir þó komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri ástæða til að breyta þessu. Vil jeg leyfa mjer með leyfi hæstv, forseta að lesa upp þann kafla úr brjefinu, sem hjer skiftir máli, þar sem lagt er til, að samþykt verði viðbótarlög við vatnsveitulögin, er hljóði svo: „Í þeim verslunarstöðum, þar sem ekki er hægt með kleifum kostnaði, að gjöra vatnsleiðslu, skal hreppsnefndum heimilt að gjöra brunna eða önnur vatnsból til almenningsnotkunar; um kostnað við það, notkun, viðhald og önnur rjettindi, er farið eftir reglum, er hreppsnefndin semur og stjórnarráðið staðfestir, og skulu gjöldin innheimt eftir sömu reglu og hin almennu hreppsgjöld“.

Þetta er hjer um bil það sama. og frumvarpsgreinin fer fram á, en mismunurinn er aðallega að bætt er inn í orðunum „með kleifum kostnaði“, og að hreppsnefndum er ætlað að innheimta gjaldið, eftir reglum, sem stjórnarráðið staðfestir. En jeg get ekki sjeð, að sú aðferð taki fram innheimtu, eftir þeim reglum, sem vatnsveitulögin gjöra ráð fyrir.

Jeg sje því ekki að svo stöddu ástæðu til annars en að samþykkja frumv., og leyfi mjer því að leggja það til, að háttv. deild samþ. frumv. óbreytt eins og það liggur fyrir.