04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Ráðherra:

Jeg vil leyfa mjer að gjöra stutta athugasemd við síðustu ræðu háttv. framsögumanns (M. P.), að því er við vjek nefnd þeirri, sem ætlast er til, að fjalli um úthlutun skáldastyrksins.

Jeg fæ ekki skilið, að nein nefnd verði svo skipuð, að hún taki styrk af þeim, sem staðið hafa í fjárlögunum og fjárlaganefnd neðri deildar hefir tekið upp, svo sem Valdimar Briem, Einari Hjörleifssyni, Guðmundi Guðmundssyni, Guðmundi Magnússyni og Guðmundi Friðjónssyni. Og þó einhver nefnd væri svo vitlaus, að leggja það til, þá gæti stjórnin ekki farið eftir því. Og þegar þeir hafa fengið styrk, þá er nær allur styrkurinn búinn. Og svo koma þeir, er fjárlaganefndin hefir bent á, svo sem Kristín Jónsdóttir, Kjarval, Theodór o. fl.

Og hvað á nefndin að gjöra? Þetta er ekkert fje, sem verður til úthlutunar.

Og jeg verð að líta svo á, sem athugasemd fjárlaganefndar sje eins mikils virði og álit einhverrar nefndar. Því þó að fjárlaganefndin sje ekki listfróð, hvaða trygging er fyrir því, að nefndin verði það fremur. Jeg vík ekki frá því, að nefndin er bæði óþörf og hlægileg.