23.08.1915
Efri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

70. mál, Hafnarfjarðarvegur

Framsögum. (Sig. Stefánsson) :

Þar sem nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að ráða háttv. deild til að samþykkja frumvarpið óbreytt, þá hefi jeg ekki mikið að segja. Það voru einkum ummæli landsverkfræðingsins, sem komu nefndinni til að líta svo á, að sjálfsagt væri að samþykkja frumvarpið. Eftir gildandi lögum er Hafnarfjarðarvegurinn í tölu flutningabrauta, og er þá sýslufjelaginu skylt að halda honum við. En þetta er ranglátt gagnvart öðru sýslufjelaginu, Kjósarsýslu, sem engin not hefir af veginum. Bendir landsverkfr. á, að rjettast sje að taka veginn upp í tölu þjóðvega. Og á þá skoðun felst nefndin algjörlega.

En það eru ýms atriði í brjefi landsverkfræðingsins, sem athuga,þyrfti, en sem jeg mun leiða hjá mjer að tala um, því jeg býst við, að háttv. meðnefndarmaður minn, þm. G.-K. (K. D.), muni eitthvað drepa á þau. En jeg vona að háttv. deild samþykki frumvarpið óbreytt, einkum með það fyrir augum, að ljetta þessum ranglátu kvöðum af Kjósarsýslu.