23.08.1915
Efri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

70. mál, Hafnarfjarðarvegur

Framsm. (Sig. Stefánsson) :

Jeg verð að taka í sama strenginn og háttv. þm. G.-K. (K. D.), að fyrst landsverkfræðingurinn mælir með því, að landið taki veginn að sjer, þá er líka sjálfsagt, að það gangi vel frá honum. Þetta er einn aðalvegur landsins, og afar fjölfarinn, og því bráðnauðsynlegt, að hann sje vel úr garði gjörður. En nú er hann oftast ófær, ef nokkuð rignir. En þar sem verkfræðingurinn talar um að leggja ekki nýjan veg, þá verður það víst að skiljast svo, að ekki sje meiningin að breyta stefnu vegarins, en vitanlega eigi að gjöra á honum allar þær endurbætur, sem við þarf, svo að hann verði alt af vel fær, því nú er hann landinu til vansæmdar, og jeg álít það skyldu deildarinnar að taka undir það, að stjórnin megi ekki láta undir höfuð leggjast, að sjá um að sem best verði frá þessum vegarkafla gengið.