24.08.1915
Efri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

82. mál, Stykkishólmsvegur

Framsögum. (Sigurður Stefánsson) :

Það er svipað að segja um frumv. þetta og Hafnarfjarðarveginn, að það er komið fram til að bæta úr misrjetti á vegalögunum um viðhald á Stykkishólmsveginum.

Eins og nú er um veg þennan, þá koma 16. og 18. gr. vegalaganna hvor í bága við aðra. Í 16. grein er svo mælt fyrir, að sýslufjelagið skuli kosta viðhald vega, að því leyti sem þeir sjeu akfærir, en í 18. grein er aftur svo mælt fyrir, að hjeruðin kosti viðhald þessara vega undantekningarlaust, eins þá hluta hans, sem ekki eru akfærir.

Þessi ósamkvæmni er komin af því, að í sjerstökum lögum um veg þennan, er sett voru á undan hinum núgildandi vegalögum, var svo mælt fyrir, að Snæfellsness- og Mýrasýslur skyldu skilyrðislaust kosta viðhald þessa vegar að öllu leyti, en þegar svo vegalögin voru endurskoðuð, þá voru þessi ákvæði gömlu laganna tekin óbreytt upp í lögin, og þannig komst þessi ósamkvæmni inn í vegalögin.

Úr þessu á frv. að bæta, og mæli jeg því með, að það verði samþykt óbreytt.