25.08.1915
Efri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

68. mál, útflutningur hrossa

Jósef Björnsson:

Að eins fáein orð, út af ágreiningi þeim, sem hjer hefir orðið.

Eins og háttv. framsm. tók fram, var það aðallega umhugsunin um veðuráttuna, sem rjeð því, að nefndin hallaðist að 1. maí. Eru vitanlega meiri líkur til þess, að veður sjeu farin að batna, þegar svo áliðið er orðið. En úr því jeg stóð upp, vil jeg taka það fram, að jeg lít ofurlítið öðruvísi á útflutning hrossa á þessum tíma heldur en hinir háttv. þm., sem talað hafa. Jeg er á sama máli um það, að hrossin leggi mest af á vorin, og að þau sjeu oft í betra standi 1. apríl, heldur en síðar að vorinu. Að þessu leyti er því öllu betra að flytja þau út í apríl en í maí, þegar hart vorar. Þau hross, sem 1. apríl líta illa út, versna venjulega, og þá skal jeg játa, að nokkurt álitamál getur verið, hvort meira eigi að meta, líkindi til betra veðurs eða að fyrstu hrossin, sem út eru send, sjeu í betra standi.

Þá vil jeg láta það í ljós, að þótt meðferð hrossa sje auðvitað að mörgu leyti ábótavant, þá er þó ekki ástæða til, að tala á þá leið, að algengt sje, að þau deyi úr harðtjetti, þó það ef til vill komi fyrir.

komi það fyrir í harðindaárum, þá eru það ekki hrossin ein, heldur og fleiri skepnur. Mannúðin og sómatilfinning manna er á miklu hærra stigi nú en áður, og meðferð því betri á öllum skepnum.