27.08.1915
Efri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (405)

68. mál, útflutningur hrossa

Framsögumaður (Sig. Stefánsson) :

Jeg tók það fram, að við 2. umr. þessa máls, að sumir í nefndinni hefðu kosið að bannað væri að flytja út hross til 1. júní. En nefndinni var hins vegar kunnugt, að breytingartillaga í þá átt hefði komið fram í neðri deild og verið feld þar, og jeg get ekki fallist á, að það sje ekki rjett, að taka tillit til þeirrar deildar, þegar um mál er að ræða, sem menn óska að fái framgang. — Jeg tók það fram, að jeg fyrir mitt leyti felli mig betur við, að bannið næði til 1. júní, en við verðum að aðgæta, hvort það gæti ekki orðið málinu að falli, á þessu þingi. Það er ómögulegt að segja um, hve nær best er að flytja hrossin út. Stundum er það best í apríl, stundum seinna, eftir því hvernig vorar. Það er því ómögulegt, að sigla fyrir það, að hross verði flutt út, þótt mögur sjeu, nema því að eins, að bannið sje látið standa t. d. fram í miðjan júní, en það gæti komið mjög í bága við hagsmuni hrossaeigenda. Vorbati getur maður hugsað að altaf byrji í júní, en stundum ekki fyrr. Hjer er litið á það, hvað líklegt er um líðan hrossa á útleiðinni og það er sennilegt, að hún sje því betri sem lengra líður fram á. Að lokum vil jeg geta þess, að nefndin hefir óbundnar hendur í þessu máli.