07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Jósef Björnsson:

Eins og háttv. framsögumaður tók fram, þá vil jeg fyrir hönd strandferðanefndar fara þess á leit, að hækkaður verði styrkurinn til Faxaflóabátsins. Eins og kunnugt er, hafði hann á síðasta fjárhagstímabili 14,500 kr. hvort árið, svo styrkurinn, sem hjer er farið fram á, verður því 1,500 kr. lægri, þótt brtt. um 12,000 kr. ná fram að ganga. Þegar strandferðanefndirnar voru að fjalla um þetta mál, þá lágu fyrir þeim reikningar fjelagsins, og var það ljóst, að báturinn hafði borið sig, og líkindi voru fyrir því, að hann gæti borið sig, þó hann fengi ekki nema 10,000 kr. styrk. Þess vegna lagði nefndin til að fjelagið fengi ekki nema 10,000 kr. styrk á ári. En eftir að nefndin hafði gefið út þetta álit sitt, þá kom það í ljós að fjelagið var ófáanlegt til þess að halda uppi ferðum alt árið, ef ekki yrði hærri styrkurinn. Nefndin leit svo á, sem ekki mætti eiga sjer stað, að ferðirnar fjelli niður, sökum þess mikla póstflutnings, sem báturinn flytur. Nefndin leitaði sjer upplýsinga um það, hversu mikið þessi póstflutningur næmi, og kom það í ljós, að það var hátt á 7. þúsund kr. árlega. Þegar þetta var tekið til athugunar, að bátsferðirnar gefa óbeinlínis af sjer meira en helminginn af því, sem styrkurinn nemur, þá þótti nefndinni ekki ósanngjarnt að fjelagið fengi 12,000 kr. árlega.

En í sambandi við þetta vil jeg geta þess, af því að jeg er nú staðinn upp, að strandferðanefndin var einróma á því máli, að nauðsyn bæri til að reyna að haga ferðum bátsins þannig, að hann fært ekki margar óþarfa ferðir, færi ekki á þá staði, þar sem hvorki væri farmur nje fólk að flytja. Það kom í ljós þegar yfir farnir voru reikningar fjelagsins, að bæði Faxaflóabáturinn og „Ásdís“ höfðu farið margar slíkar ferðir, án þess að fá nokkuð í aðra hönd. Jeg vil t. d. benda á ferðir Ásdísar milli Reykjavíkur og Stokkseyrar. Þær ferðir hafa allar gefið af sjer yfir árið 18,23 kr. í farmgjald. Slíkar ferðir eru algjört óvit, og verður að gjalda, varhuga við þeim, þegar ferðaáætlanirnar eru samdar, þar sem þær eru algjörlega óþarfar. Þegar búið er að strika út þessar ferðir, er fyrst hægt að búast við, að báturinn beri sig verulega, og þá verður minni ástæða til að láta af hendi mikið fjárframlag.

Í sambandi við þetta mál vil jeg enn fremur benda á það, að á þessum strandferðabátum er mjög lítið af björgunartækjum. Þetta er mjög háskalegt, því eins og kunnugt er, eru bátarnir oft yfir fullir af fólki, og er þá naumast forsvaranlegt, að ekki skuli vera nægileg björgunartæki, ef slys bæri að höndum. Mjer finst fylsta ástæða vera til þess, að landsstjórn og hjeraðsstjórn hafi fullar gætur á þessu og hlutist til um að úr þessu verði bætt. Loks virðist ástæða vera til þess fyrir stjórnina, að hlutast til um að bátarnir sjeu ekki yfir fyltir, sem oft verður raunin á. Erlendis er það alstaðar siður, að sett sjeu takmörk fyrir því hversu margt manna, skip megi flytja, en hjer virðast engin takmörk vera fyrir því, og er það alveg óforsvaranlegt, þegar þess er gætt hvað björgunartæki eru öll í ólagi.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vona að deildin sjái sjer fært að veita þessar 12000 kr., sjerstaklega af þeirri ástæðu hvað fjelagið flytur mikinn póst og að fastar ferðir falla algjörlega niður, ef fjelaginu er neitað um þetta.