07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Hákon Kristófersson ; Jeg á nokkrar brtt., sem jeg vildi minnast á. Brtt. 809 er um það eitt, að kolarannsóknarfjenu skuli varið til rannsókna á Vesturlandi, í stað þess, sem ákveðið er í frv. „á Íslandi“. Það er einróma álit manna að mest muni vera um kol á Vesturlandi, og er því sjálfsagt að byrja rannsóknir þar, og er trygging fengin fyrir því, að svo verði gert, ef tillaga mín verður samþykt. Af þessari orsök hefi jeg leyft mjer að koma fram með hana. Annars hefi jeg litla ástæðu til þess að vera mjög hrifinn af þessari fjárveitingu, eftir nýjustu upplýsingum að dæma, sem jeg hefi fengið um það mál.

Brtt. 806 fer í þá átt að heimild veitist til þess, að lána Suðurfjarðarhreppi 15,000 kr. úr viðlagasjóði, til þess að raflýsa Bíldudalskauptún, gegn ábyrgð Vestur-Barðastrandarsýslu. Mjer hefir verið falið að fara þess á leit, en þetta fjell úr minni mínu við 2. umr. fjárlaganna, og taldi jeg enda vafasamt að fram mundi ganga. En þar sem samþykt var við 2. umr. að veita Húsavík lán til raflýsingar, þá treysti jeg svo rjettlæti háttv. deildar, að láta einnig þetta ná fram að ganga. Jeg hefi ekki í höndum nákvæma áætlun um fyrirtækið, en get þess, að rafmagnsfræðingur Halldór Jónsson hefir þegar samið áætlun um það, og hefir ekkert verið til fyrirstöðu að verkið væri hafið, annað en það, að fje hefir vantað. Jeg ætla ekki fleiri orðum um þetta að eyða, en eins og jeg hefi sagt, treysti jeg svo á rjettlæti og sanngirni hv. deildar, að hún samþykki brtt.

Um brtt. á þgskj. 808 ætla jeg ekki að tala. Hæstv. forseti hefir neitað að bera hana undir atkv., og þó jeg sje honum ósamþykkur í því atriði og verði að halda því fast fram, að sú aðferð forseta sje gagnstæð þeirri venju, er fylgt hefir verið í þinginu, þá hlýt jeg að beygja mig undir úrskurð hans.