07.09.1915
Efri deild: 54. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Jón Þorkelsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma með nokkrar brtt. við fjárlagafrumvarpið, og skal jeg gera lítilsháttar grein fyrir þeim.

Á þgskj. 786 á jeg brtt. þess. efnis, að veitt verði fje til kenslu í líffærameinfræði og sóttkveikjufræði við Háskólann. Í háttv. neðri deild var flutt frumvarp um stofnun embættis í þessu skyni, en það náði ekki fram að ganga, og var það þó fram komið að undirlagi helstu manna hjer í landi í þessum fræðum, og hafði meðmæli háskólaráðsins. Mátti því segja að allir menn, sem vit höfðu á málinu, voru þessu fylgjandi, og töldu þetta nauðsynjamál fyrir landsmenn, en háttv. neðri deild hefir samt sem áður ekki tekið það til greina. Í brjefi, sem Alþingi hefir borist frá háskólaráðinu, þar sem þessa er farið á leit, er þess jafnframt getið, að bráðlega sje völ á manni, sem muni verða mjög fær um að taka að sjer þetta starf. Ýmsir hafa haldið því fram, að lítil þörf mundi vera á slíku embætti, sökum þess að fje sje veitt til gerlarannsókna í efnarannsóknarstofu landsins. Og er það að vísu satt, að þar er maður sem fæst við slíkt starf, og hlýtur misjafna dóma, þeirra manna er vit hafa á; en um það eru allir samdóma, sem nokkuð þekkja til, að sá maður sje með öllu gagnslaus til þess starfa, er þessum háskólakennara er ætlaður. Og verður því ekki neitað að undarleg ráðsmenska er það, að fleygja fje í þá menn, er á íslensku eru nefndir fúskarar, en hafna hálærðum mönnum, sem segja má um, að sitji inni með lykil viskunnar í þessum fræðum.

Aðra brtt. á jeg, um aukinn styrk til aþýðufræðslu Stúdentafjelagsins. Stúdentafjelagið í Reykjavík hefir um nokkur ár haft dálítinn styrk, til þess að halda uppi fyrirlestrum fyrir alþýðu manna hjer í Reykjavík og í næstu sýslum, sem til verður náð. En nú hefir Stúdentafjelagið á Akureyri farið þess á leit við Reykjavíkurfjelagið, að það fengi einhvern hluta styrksins, til þess að halda uppi fyrirlestrum norðan lands. Þetta hefir fjelagið ekki sjeð sjer fært, þar eð styrkurinn er svo lítill, og alls ekki til skiftanna, en kannast hins vegar við, að mikil þörf væri á að gjöra Akureyrarfjelaginu einhverja úrlausn, þar sem það á svo hægt með að ná til margra sveita, sem ómögulegt er hjeðan úr Reykjavík.

Þessi alþýðufræðsla er nú orðin eitthvað 20 ára gömul, og átti háttv. 5. kgk. þm.

(G. B.) góðan þátt í því að koma þessu á fót, eftir því sem jeg veit best til. Jeg kyntist ekki þessu starfi fyr en 1910, en síðan hefi jeg verið nokkuð við það riðinn, ásamt mörgum góðum mönnum, svo sem dr. Guðm. Finnbogasyni o. fl.

Síðan árið 1910 hafa verið alls haldnir 210 fyrirlestrar, og nákvæmlega helmingur þeirra utan Reykjavíkur. Jeg hirði ekki um að telja upp staði þá, hvar fyrirlestrarnir hafa verið haldnir. Hygg það sje ekki það höfuðatriði. En við höfum getað náð til allra fjórðunga landsins. Það er að þakka aðstoð Guðmundar Hjaltasonar, er ferðast víða um land og ferðast ódýrt. Fleiri fyrirlestrar hefðu verið haldnir utan Reykjavíkur, hefði það verið fært, kostnaðarins vegna. Þykist jeg ekki þurfa hjer um að hafa fleiri orð, jeg tel víst, að allir skilji, að hjer er um þarft og nytsamt mál að ræða.

Jeg á hjer lítilfjörlega breytingartillögu við 15. grein 47, um styrk til goodtemplara. Það á ekki að hagga við honum, en jeg vil að hann sje bundinn skilyrðum. Þetta er sjerstaklega gjört vegna þess, að Stórstúka goodtemplara hefir gjörst nokkuð djörf til orða og verka. Það er svo að sjá, sem hún vilji, að henni sje veitt fje til lögreglueftirlits, en til þess standa engin lög, að Stórstúkan geti farið með lögreglueftirlit; til þess þarf lög, ella yrði það lagalaust. Þetta vita allir, sem komnir eru til vits og ára, nema ef vera skyldi goodtemplarar. Aðrir en lögreglustjórar landsins mega ekki með það vald fara. Því hefi jeg borið fram svohljóðandi skilyrði, sem styrkurinn yrði bundinn „að goodtemplarareglan láti á allan hátt afskiftalaust um gæslu, framkvæmd, viðhald eða afnám áfengisbannlaganna“. Og jeg gjöri það með góðri samvisku. Það er vitamál, að goodtemplurum kemur þetta ekki við, fremur en mjer eða öðrum, eða með öðrum orðum, að templara varðar ekkert um það.

Hitt skilyrðið er um að styrkja þann mann, er vann allra manna best og mest í þarfir Reglunnar, meðan hún fór rjett með starf sitt. Það skilyrði er um, að Sigurður dannebrogsmaður Eiríksson njóti helmings styrksins. Þessi sómamaður hornaði landið og mælti með bindindi og reglusemi, og jeg hygg að hann hafi oft „illustrerað“ ræðu sína með lifandi og dásamlegum dæmum. Hann hefir að vísu ekki sótt um styrk til þingsins, og hefir nú lítilfjörlegan styrk í 18. gr. fjárlaganna, en jeg hygg það þurfi eigi að verða þessu að grandi. En hann er bilaður að heilsu og fjelítill, og jeg tel, að templurum væri ekkert kærara, en að honum mætti vegna vel í elli sinni. Vona jeg því, að allir þeir, sem hafa unnað bindindi og reglusemi, verði með þessu. En hvort hinir, sem bannlög hafa sett, verða það, veit jeg ekki. (Björn Þorláksson: Eins og 6. kgk. þm.?) Það er ekki ábyggilegt, að það sje rjett bókað. Hygg jeg, að flestum muni þykja þetta eðlilegt, einkum nú, er jeg hefi frjett, að það sje ekki meiningin, að nota styrkinn til æsandi bann-agitationa, heldur til þess að borga þungar skuldbindingar, sem templarar hafa tekist á hendur, er þeir störfuðu rjett. Má ske hafa þeir tekið að sjer skuldbindingar þessar í vitleysu, eins og hent hefir ýmsa góða menn, en síðan jeg frá það, er jeg ekki eins á móti styrknum og áður var, meðan jeg kunni minni skil þar á.

En jeg vil vera laus við alt flangur frá goodtemplurum, og ef þessir herrar halda áfram að vera of nærgöngulir, þá vil jeg vekja athygli þeirra á því, að betra er fyrir þá að gæta lífs og lima.