31.07.1915
Efri deild: 20. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

65. mál, áfengir drykkir

Flutnm. (Björn Þorlákss.):

Þetta frv. er breyting á gildandi lögum um bann gegn tilbúningi áfengra drykkja. Þessi lög eru 15 ára gömul, og eru þau mjög stutt og ófullkomin. Sektirnar eru svo hlægilega lágar, að þær geta ekki fælt nokkurn mann frá því, að brjóta lögin. Frumvarp þetta er í nánu sambandi við bannlögin. Síðan þau gengu í gildi hefir talsvert borið á því, að menn reyndu að brugga áfengi, af því að svo erfitt hefir verið að ná í það á annan hátt, því þrátt fyrir hina löngu ræðu, sem haldin var hjer í deildinni áðan, þar sem því var haldið fram, að alt landið flyti í áfengi, þá er þó víst að sveitirnar yfir höfuð eru nú algjörlega „þurrar“.

Frumvarpið fer fram á að sektir fyrir tilbúning áfengra drykkja komist í samræmi við bannlögin. Auk þess er það nýtt í frv., að lagðar eru sektir við því, að gjöra það áfengi, sem er eða hefir verið gjört óhæft til drykkjar, aftur drekkandi. Á slíkum tilraunum hefir líka borið á nú í seinni tíð. Það er sjerstaklega suðuspiritus, politur og þess konar, sem menn hafa reynt að gjöra drekkandi. Þessar tilraunir manna sýna, hve erfitt er nú að ná í áfengið, og ósanna því hina löngu ræðu hv. þm. Ísaf. (S. St.) um að bannlögin væru gagnslaus, en sýna þvert á móti, að mjög erfitt er að ná í áfengið. Með þessu frv. er reynt að koma í veg fyrir slíkar tilraunir manna, að gjöra þessa vöru drekkandi — reyndar verður hún naumast nokkurn tíma vel drekkandi og jafnan mjög óholl.

Jeg vona að deildin sje mjer sammála um það, að þetta frumvarp sje ekki ófyrirsynju fram komið, og málinu verði vísað til 2. umr. og fengið í hendur nefnd þeirri, sem kosin var í síðasta máli á dagskránni, að lokinni þessari umræðu.