25.08.1915
Efri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

65. mál, áfengir drykkir

Karl Finnbogason:

Jeg get ekki verið sammála hv. 4. kgk. (B. Þ.) um það, að rjett sje að leggja jafn háar sektir við gjörð og innflutningi. Hjer er að ræða um gjörð á saklausum víntegundum, svo sem t. d. rabarbarvíni, og innflutning á sterkum drykkjum, og er rangt að leggja þar við sömu sektir. Sektarákvæði eiga þó jafnan að fara eftir eðli lagabrotsins.

Jeg vil annars benda á það, sem öllum má vitanlegt vera, að áfengisstyrkleiki öls vex við geymslu, svo að þótt það sje bruggað fyrir neðan 2¼%, þá getur það við geymslu farið upp fyrir áfengis mark. Er það nú rjett að hegna manni, sem bruggað hefir öl undir áfengismarkinu, þótt ölið fari yfir markið við geymslu? Eftir lögunum ætti, ef maðurinn væri kærður, að gjöra upptæk áhöldin, sem hann hefir notað við áfengisgjörðina, og sekta hann um t. d. 200 kr. Jeg get ekki fallist á, að þetta sje rjett. Hjer getur verið um meinlausa öltegund að ræða, sem rjett nær 30%. Er það þá nokkur sanngirni að hegna mönnum fyrir slíkt? (Jón Þorkelsson: Mönnum er nær að drekka ölið í tíma!). — Loks vil jeg taka það fram, að jeg tek hvoruga tillöguna aftur, — best að þær komi báðar til atkv.