03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra:

Háttv. 2. kgk. þm. (Stgr. J.) vildi hafa í lögunum skilgreining á því, hvað „verkfall“ væri. Eigi tel jeg þess þörf, en tel sjálfsagt, að dómstólarnir skæru þar úr, og dæmi það, er hann tók um starfsmann í Landsbankanum, tekur enginn fyrir verkfall. Auðvitað er hjer með verkalli átt við það, sem á útlendu máli er kallað strejke. En eins og jeg tók fram, sje jeg ekki ástæðu til að skilgreina það í lögunum. Í hegningarlögunum er t. d. hvergi skilgreint, hvað sje þjófnaður, hvað se nauðgun, hvað sjeu svik, hvað blóðskömm o. s. frv., en þess hefir eigi þótt þörf. Vísindin og dómstólarnir skilgreina þess konar rjettarhugtök. Vitaskuld mætti setja í lögin útlenda orðið innan sviga á eftir orðinu „verkfall“, svo síður væri misskilnings hætt, en jeg tel þess enga þörf, þó jeg hins vegar gjöri það ekki að neinu kappsmáli, og mjer liggi í ljettu rúmi, þó svo væri gjört. Jeg hygg það víst, að enginn dómari með heilbrygðri skynsemi yrði í nokkrum vanda með að dæma um það, hvað verkfall væri.

Út af sektunum vil jeg taka það fram, að mjer hefir virst svo, að það sje meginregla dómstólanna hjer á landi, að beita lægstu sektarákvæðum að minsta kosti við afbrot framið í fyrsta sinni, og því get jeg ekki fallist á það, að sektirnar verði færðar niður. Það eru ýmsir opinberir starfsmenn, er hafa svo gott kaup, að þá munar ekki um það, þótt þeir ættu að greiða t. d. 500 króna sekt. Það mundi eigi nema öllu meiru en mánaðarlaunum þeirra. Og ef slíkum manni þætti gaman að koma verkfalli af stað, mundi hann eigi alt af horfa í eins mánaðar kaup. Ef sektirnar alment væru færðar niður, þá tel jeg vist að lögin yrðu pappírsgagn einbert, því að jeg gjöri ráð fyrir fyrir, að dómararnir mundu halda uppteknum hætti með að dæma í lægstu sektir. En eigi er það nema rjett, að forgöngumennirnir verði harðara úti en hinir, en annars eru opinberir starfsmenn alment svo þroskað fólk, að það veit vel hvað það er að gjöra.

Öðru máli er að gegna um það, að heimila lægri sektir, ef sjerstakar ástæður eru fyrir hendi, einhverjar alveg sjerstakar málsbætur. Það tel jeg að væri gjörlegt.