03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Guðmundur Björnson :

Mjer finst frv. þetta að ýmsu leyti athugavert.

Við megum ekki gleyma því, að rjettur fólks til að leggja niður vinnu er nú viðurkendur um allan heim.

Að banna verkföll er sama sem að segja: Komi ágreiningur milli vinnuveitanda og vinnufólks, þá hefir starfsfólkið ávalt rangt fyrir sjer; vinnuveitandinn skal ávalt hafa rjettinn, — rjettinn til að neita — hversu sanngjarnar og rjettmætar sem kröfur vinnufólksins eru.

Hæstv. ráðherra vjek að því, að þess konar lög væru til í Frakklandi og á leiðinni í Noregi. En jeg neita því, að svo sje, fyrr en jeg sje þau. Jeg veit, að það hefir komið til mála, að setja þau í þessum löndum, en jeg neita að þau hafi verið sett, fyrr en jeg sje það.

Þar með vil jeg ekki segja, að lög um verkfall sjeu ónauðsynleg. En jeg vil segja, að þess konar lög megi ekki vera svona ströng, svona óbilgjörn, eins og þetta frumvarp.

Við verðum vel að gæta að því, að hið opinbera hefir allt af fjölda starfsmanna, við síma, við póstmál, við verkleg fyrirtæki, svo sem vegi, vita og járnbrautir, er þær koma, og það má allt af búast við því, að það rísi upp ágreiningur milli starfsmannanna og vinnuveitandans, útaf kaupgjaldinu; því þó fólkið sje ráðið fyrir tiltekið kaup, þá geta kringumstæður breytst, og þá mælir öll sanngirni með því, að lítið sje á alla málavexti, en ekki sagt, að vinnufölkið hafi allt af rangt, og vinnuveitandinn allt af rjett fyrir. sjer. Það er ekki rjett að selja vinnuveitanda sjálfdæmi.

Það rjetta og holla er, að hafa gjörðardóm, og í þá stefnu hneygjast hugir allra hugsandi manna í öðrum löndum. Og það er vel farið. Gjörðardómurinn mætti vera svo skipaður, að vinnufólkið tilnefndi einn, vinnuveitandi einn og yfirdómurinn einn mann í dóminn. Ef svo vinnufólkið ekki sættir sig við dóm gjörðardómsins, þá mætti beita sektum, eins og hjer er í frumvarpinu.

Jeg mun greiða frv. atkvæði til þriðju umræðu, en lengur ekki, óbreyttu.