03.09.1915
Efri deild: 51. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra:

Hv .2. kgk. þm. (Stgr. J.) sagði, að má ske væri eigi ástæða til að láta lög þau, sem hjer ræðir um, ná til annara en þeirra, sem beint væru í landsins þjónustu. Það getur verið, að eigi sje brýn þörf á því nú sem stendur, en hæglega getur þannig breytst, að full þörf verði á að þau nái til fleiri. Setjum svo, að einhver sveit setti upp rafmagnsstöð, sem veita ætti ljós og jafnvel hita heimilum í heilli sveit. Mundi ekki horfa til vandræða, ef starfsmenn við slíka stöð legðu snögglega niður vinnu? Hætt er við því, fæstir mundu eiga þar önnur ljósfæri eða hitunaráhöld til að bregða fyrir sig, einkum væri stöðin orðin nokkurra ára, þegar þetta bæri að höndum.

Það hafa jafnvel nú þegar verið reistar rafmagnsstöðvar í kauptúnum hjer í landi, og mundi ekki úr vegi að ákvæði verkfallslaganna næðu til starfsmanna við þær, og þegar minst varir geta slíkar eða þvílíkar starfsgreinir fyrir kauptún eða sveitir risið upp.