04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Flutningsmaður (Jósef Björnsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma með 2 brtt. á þgskj. 765. Ber jeg þær fram í samráði við hæstv. ráðh. og meðflutningsmenn mína að frv.

Eins og sjá má, eiga þær báðar við 1. gr. frv. Fyrri brtt. undir stafliðnum a fer fram á, að á eftir orðinu „Landsbankans“ bætist inn í : spítala. Um þessa brtt. er það að segja, að oss flm. þykir ekki mjög miklu máli skipta, hvort hún er samþykt eða ekki, því nú sem stendur hefir þetta ákvæði ekki mikla þýðingu. En svo fer líklegs, þegar fram í sækir, að hjer verði komið upp landspítala, og og þá er engu minn þörf að nefna spítala í lögum en t. d. Landsbankann. Það mun og svo mega líta á, að þótt landið eigi ekki spítala sjálft, þá sje ákvæðið ekki þýðingarlaust. Oss þótti því rjett að koma með þessa brtt. og gefa hv. deild kost á að segja álit sitt um hana.

Í brtt. undir b-liðnum er farið fram á, að þegar sjerstakar málsbætur sjeu fyrir hendi, þá megi færa niður fyrir sekta lágmark það, sem til er tekið í 1. gr., þó aldrei niður fyrir sektalágmark 2. gr., eða 200 kr. Lengra sjáum vjer oss fært eigi að ganga, og vonum að deildin samþykki tillögur vorar.

Jeg hefi ekki annað um brtt. hv. kgk. þm. (G. B.) að segja, en að við flm. getum eigi aðhylst þær. Þær eru þess eðlis, að verði þær samþyktar, þá er með því kipt grundvellinum undan frv. voru og tilgangi þess verður þá ekki náð; hljótum við því að greiða atkvæði móti þeim.