04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra:

Jeg vil leyfa mjer að tala nokkur orð um breytingartillögu hv. 5. kgk. (G. B.). Jeg vil þá byrja á enda breytingartillögunni, þeirri 6., eins og hann sjálfur.

Það er vitanlega óaðgætni hjá háttv. flytjanda, að hafa fyrirsögnina: Lög um bann gegn verkfalli ; það ætti að vera : Frv, til laga o. s. frv., en það er ef til vill prentvilla. (Guðm. Björnson: Það er prentvilla). Mjer skildist svo, að frumvarpið væri ekki bann gegn verkfalli, heldur legðu þau hegningu við slíku; hegningarlögin banna ekki þjófnað, en þau leggja hegningu við honum.

Háttv. 5. kgk. (G. B.) talaði í gær um; að rjetturinn til að gjöra verkfall væri viðurkendur, en nú vill hann banna mönnum að nota þenna rjett. Hann vill gjöra opinberum starfsmönnum heimilt að koma einn góðan veðurdag og segja: Við erum óánægðir með kjör okkar; nú viljum við fá gjörðardóm. Gjörðardómurinn dæmir þeim nú má ske hærra kaup á þeim tíma, þegar fjárveitingarvaldið er ekki saman komið, og landssjóður verður þá dæmdur til að greiða fje, sem ekki er veitt leyfi til í fjárlögum. Það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Háttv. 5. kgk. vill fella alt frumvarpið nema 1. gr. og láta hana ekki ná til þess, ef menn hóta verkfalli. Það að ógna með verkfalli, er þó alls ekki hættulaust, og því verður að setja skorður.

Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) var að bera saman kjör opinberra starfsmanna og annara. Þegar þeir væru óánægðir, þá væri það þeirra rjettur að leggja niður vinnu. Þetta er stundum en ekki altaf. Sje ekki ógnað með verkfalli fyrr en samningar eru runnir út, er það löglegt. En sje það gjört áður en samningar eru útrunnir, þá er það ólöglegt. Venjulegast er það svo, að vinnuveitendur fá aðvörun löngu áður en á að gjöra verkfallið, stundum hálfu ári áður, í öllu falli mörgum vikum. Oft talaði háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) um fjelagsskap, sem verkamenn hefðu sín á milli, og enginn ætti að amast við. En sá fjelagsskapur á að vera í öðru fólginn en verkfallssamtökum, að minsta kosti meðal opinberra starfsmanna. Fjelagsskapurinn getur haft þann tilgang að fræða, skemta og auðga andann.

Háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) talaði um að opinberir starfsmenn yrðu þrælbundnir, ef þetta frumvarp yrði að lögum. Hann gætir ekki að mismuninum, sem er á milli þeirra og annara verkamanna. Það er ekki venja að segja þeim upp vinnunni fyrirvaralaust og það kemur ekki fyrir að ríkið gjöri „loc out“ eða verkbann. Þetta getur komið fyrir hjá almennum vinnuveitendum, en ekki því opinbera. Um verkamenn einstakra manna er það algengt, að þeim er sagt upp vinnu, en það opinbera er ekki vant að segja mönnum upp vinnu, nema fyrir lasleika sakir eða vanrækslu í embættisfærslu. Þessir opinberu starfsmenn hafa svo mikil forrjettindi, að það er ekki ósanngjarnt að skylda þá til að halda vinnu sinni áfram þangað til þeir beiðast löglega lausnar.

Þar sem háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) vill hafa gjörðardóm, er hann ávísun fyrir menn að vera allt af að kveina og kvarta, hvernig sem á stendur. Jeg held að það mundi koma losi á allar framkvæmdir, því það er alt af hægt að heimta hækkun og heimta gjörðardóm. Mjer er ekki kunnugt um, að slíkur gjörðardómur sje til í nokkru landi, en jeg vil þó ekki neita fortakslaust, eins og háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) gjörði í gær, heldur bíða átekta.

Háttv. 5. kgk. vill loks, ef gjörðardómur hefir kveðið upp dóm sinn og honum er ekki hlýtt, sekta starfsmenn ofurlítið; 100 kr. er lágmarkið. En svo er það tilfelli, ef starfsmennirnir segjast engan gjörðardóm vilja hafa, heldur bara heimta það, sem þeim sýnist, þá fyrst koma sektirnar.

Háttv. 5. kgk. vill fella 3. gr. alveg niður, en það er einmitt hún, sem að mínu áliti er mest áríðandi; það varðar mestu, ef ógnað er með verkfalli. Sú grein átti því að koma í veg fyrir samtökin, því að þau eru hættulegust.

Mjer finst mjög undarlegt, að háttv. 5. kgk. vill ekki ákveða, hvernig fara skuli með mál, sem út af þessu kunna að rísa. (Guðm. Björnson: Svo, það var skrítið!) Jeg bið forláts, jeg sje að 5. grein á að standa.

Háttv. 5. kgk. neitaði í gær, að verkfallslög væru til annarstaðar. Í norsku hegningarlögunum frá 22/5 1902 er þó þetta verkfallsákvæði, sem jeg með leyfi hæstv. forseta vil lesa upp: Undlader en offentlig Tjenestemand forsætlig at udföre nogen Tjenestepligt, eller overtræder han paa anden Maade forsætlig sine Tjenestepligter, eller viser han, trods Advarsel, Forsömmelighed eller Sködeslöshed ved Udförelse af disse, straffes han med Böder eller Tjenestens Tab.

Eins og jeg drap á í gær, má ætla, að 144. gr. almennra hegningarlaga nái til verkfalls. Þar er lögð refsing við, ef menn sýna vanrækslu eða hirðuleysi í embættisfærslu. Það er að minsta kosti vanræksla, ef menn leggja niður starf sitt samkvæmt ákveðinni hótun; það getur vægast heimfærst undir vanrækslu. En greinin er ekki orðuð með þessu fyrir augum, og því vafasamt, hvernig dómstólarnir mundu líta á það. Best er því að ákveða skýlausar reglur, svo engum vafa sje undirorpið, hvernig með skuli farið. Frakkar hafa líka sett hjá sjer mjög ströng lög um þetta efni, miklu strangari en þau, sem hjer er um að ræða. Samkvæmt lögum Frakka, sem jeg hefi fengið í hendur og hefi þýtt nokkurar greinar úr, varða samtök, sem menn gera í því skyni, að hefja verkfall, fangelsisvist frá 6 dögum upp í 3 ár, eða fjesektum frá 6 frönkum upp í 3000 franka. Og í þessum löum er líka sjerákvæði um opinbera starfsmenn, sem jeg með leyfi hæstv. forseta skal lesa upp:

„Sjerhver samtök um ráðstafanir, er fara í bága við lögin, hvort sem þau eru framin af fjelagsskap einstakra manna, eða af stjett manna, sem hefir með höndum einhverja sjerstaka tegund opinberrar embættisstarfsemi, og hvort sem þau eru fram borin af nefnd eða brjeflega af þeirra hendi, skulu varða fangelsisvist um tveggja mánaða tíma að minsta kosti, en sex mánaða tíma í mesta lagi fyrir hvern einstakan hinna seku, og má auk þess svifta þá með dómi borgaralegum rjettindum og sjerhverri opinberri starfsemi um tíu ára tíma eða meira“.

Og enn fremur stendur:

„Ef samtök hafa verið hafin með einhverjum þeim meðulum, er að ofan greinir, gegn framkvæmdum landslaganna eða gegn ráðstöfunum landsstjórnarinnar, er það útlegðar sök“.

Svo enn fremur ef af því hefir leitt árás á óhultleik ríkisins:

„Ef slík samtök hafa verið í þeim tilgangi hafin, eða ef af þeim hefir leitt árás á heill eða óhultleik ríkisins, varðar það dauðahegningu“.

Svo loks:

„Ef slík samtök hafa verið hafin af borgaralegum yfirvöldum og herstjórnarvöldum, eða yfirboðurum þeirra, skulu upp- hafsmennirnir eða þeir, sem til þess hafa hvatt, fluttir af landi burt til hegningarvinnu (deporteraðir); hinir skulu gjörðir útlægir“.

Mjer kom ekki til hugar að fara fram á svo stranga refsingu, sem hjer um ræðir. Annars skal jeg geta þess, að hjer á landi stendur sjerstaklega á. Hjer er erfitt að fylla upp í skörðin. Í öðrum löndum er líka her, sem hægt er að kveðja til aðstoðar, en hjer er enginn her. Póstmennirnir á Frakklandi gjörðu „strejke“ hjer um árið. Jeg held að Clemenceau hafi þá verið ráðherra. Hann kvaddi saman herinn. Þetta er ráð til að láta halda áfram, enda þótt það sje hart, en hvað á að gjöra hjer, þegar alt er komið í strand?