04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

138. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Ráðherra :

Hv. 5. kgk. (G. B.) var óþarft að fara svo hörðum orðum um þing og stjórn út af þessu máli sem hann hefir gjört. Honum hlýtur þó að vera kunnugt, að bæði stjórnin og velferðarnefndin hafa gjört sitt til að bæta hag starfsmanna landsímans og annara opinberra starfsmanna. Það er og helber misskilningur hans, að starfsmönnum landssjóðs sje með lögum þessum bannað að bera fram kvartanir yfir kjörum sínum. Það er þeim vitanlega leyfilegt, en hitt er þeim bannað, og hegning lögð við, að knýja fram kröfur sínar með verkfalli. Enn fremur sagðist hinn hv. þm. ekki hafa sannanir fyrir því, að landsstjórnin gæti ekki fundið upp á því, að lýsa yfir verkbanni. En það getur ekki komið til mála, að nokkur stjórn grípi til slíkra ráða. Ef einhver stjórn t. d, tæki upp á þeim ósköpum, að lýsa verkbanni á hendur öllum símamönnum og póstmönnum, svo að þau mikilsverðu samgöngufæri legðust niður, þá mundi sú stjórn eiga víst að verða dregin fyrir landsdóm, til þess að sæta maklegri refsingu. Það gæti auðvitað komið fyrir, að landstjórnin lýsti verkbanni, þar sem hún stendur eins og privat vinnuveitandi, t. d. gagnvart vegavinnumönnum, en þessi lög eiga ekki við í því tilfelli. — Hinn háttv. þm. sagði, að það væri ekki saknæmt að hóta manni kjaftshöggi. Það er satt, að yfirleitt er það ekki saknæmt, en þó í sumum tilfellum, t. d. ef presti er hótað fyrir altarinu. Þá er og lögð refsing við hótunum um það, að kosningar til Alþingis skuli heftar, eða því, að stjórnarskránni skuli breytt ólöglega, og fleira mætti nefna. Öll þessi ákvæði hafa sama markmið sam frumv.: að vernda hagsmuni hina opinbera. Jeg hlýt því að láta þá ósk í ljós, að hv. Ed.samþykki frv. eins og það liggur fyrir.