16.08.1915
Efri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi litlu við að bæta það, sem jeg talaði við 2. umr. Það er rjett hjá háttv. flutnm. þessarar brtt. (J. B:). að nefndin vildi ekki taka að sjer að flytja hana, þar eð skoðanir um hana voru skiftar, þrátt fyrir það,. þótt hún ef til vill sje sanngjörn. Sjerstaklega vil jeg taka það fram fyrir mína hönd, að þótt mjer þyki mikil sanngirni felast í þessari tillögu, þá er þó ekki að ræða um þessa línu eina í því sambandi, heldur, miklu fleiri, t. d. í mínu hjeraði; sú lína stendur einnig mjög framarlega í því að gefa góðan arð. Óska jeg einskis frekar en að síðar verði bættur sá mikli kostnaður, sem mörg fákæk hjeruð hafa lagt á sig við lagningu stöðva þessara. Lít jeg svo á, að svo hljóti að verða síðar. Spurningin er því að eins hvort Siglufjörður eigi að fá ósk sína uppfylta nú á undan öðrum. Tillaga landsímastjórans í þessu efni er sú, að allar línur sjeu teknar fyrir í einu lagi síðar. En mjer finst sem sagt erfitt að koma fram sem mótstöðumaður þessa máls; þó er ef til vill það rjettasta að taka allar línur í einu. Annars skal jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp tillögu landsímastjóra:

„Samkvæmt því leyfi jeg mjer að leggja til, að í 13. gr. D. II. í frumvarpi stjórnarinnar til fjárlaga 1916–17, verði tilfærða upphæðin kr. 7500 fyrir 1916 hækkuð upp í kr. 10,000 (eins og jeg lagði til í uppástungu til fjárlaga fyrir 1916) í því skyni, að heimilað verði að nota hið nauðsynlega af þessari upphæð, til að kaupa nefnt talsímakerfi.“

Hjer stendur nokkuð sjerstaklega á með Siglufjörð, þar sem einn hreppur hefir lagt fram 3600 kr. Leyfi jeg mjer því að benda á, ef þetta fellur, hvort fjárlaganefnd háttv. Ed. vill ekki taka þessa tillögu til athugunar, þar eð jeg sje að hv. Nd. hefir ekkert gjört í þessu máli. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um það.

Í sambandi við annað atriði vil jeg geta þess, að erindi hefir borist frá símastjóra til stjórnarinnar, um að æskilegt væri að loftskeytastöð væri stofnuð hjer í Reykjavík, sem næði til skipa. Hefir erindi: þetta verið sent. hingað. Samkvæmt 5. gr. símalaganna er ekki heimild til þessa, og hefir því stjórnin lagt til að orð þau, er um þetta mál fjalla í nefndri grein, sjeu feld burt. Nefndinni fanst æskilegt að fá

þessa smástöð, sem næði til skipa, þar eð nú munu þegar vera komin loftskeytatæki í annað skip Eimskipafjelagsins, og bráðum von á þeim í hitt, og jeg heyri menn segja að margir togarar mundu brátt fá sjer þau tæki, þegar stöð væri komin á landi; gæti hún því komið að miklum notum. Við leituðum upplýsinga í þessu efni til Vilhjálms Finsen, sem þekkingu hefir á þessu, og hefir hann gefið oss þá skýrslu, að tækin fyrir slíka smástöð mundi kosta 11– 12 þús., mastur 10 þúsund, og húsið, sem til þyrfti, 25 þús., tvent hið síðar talda áætlað fyrir fullstóra stöð, og það af vjelum, sem ekki nægði fyrir stóra stöð, mundi Marconifjelagið taka aftur í skiftum á sínum tíma, án mikilla affalla. En þegar vjer þó sáum hvað kostnaðurinn var mikill, rjeðum vjer af að koma ekki með sjerstaka tillögu um þetta nú til 3. umr., en nefndin vildi þó skýra frá því, og getur það þá komið fram í háttv. Nd. Hinu fyrir liggjandi frumvarpi taldi nefndin líka óhættast með því að bæta ekki fleirum atriðum við, og vona jeg að því reiði hjer vel af.