08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Kristinn Daníelsson:

. Það hygg jeg ekki rjett, sem hv. þm. Vestm. (K, E.) sagði, að að bygging þessarar stöðvar þurfi að tefja fyrir því, að stærri stöð verði bygð síðar.

Látið hefir verið í ljós, og nú af hæstv. ráðherra, að stöð til útlanda kæmi í bága við samninginn við Stóra Norræna. En þegar símalögin voru sett 1912, hefir verið gengið út frá, að komast mætti að samningum við það, en þó tekið beint fram í 6, gr., að þetta verði eftir gildandi samningum.

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) talaði mikið um kostnaðinn; um bann get jeg að vísu ekkert fullyrt, en skýri að eins frá því, sem mjer hefir verið sagt. Jeg hefi upplýsingar mínar frá Vilhj. Finsen loftskeytafræðingi, sem er eini maðurinn hjer, sem nokkuð kann að slíku. Jeg gleymdi að taka það fram, að reksturskostnaður mun, eftir lauslegri áætlun sama, verða nálægt 3500 kr. á ári. En hvað því viðvíkur, að útgjörðarmönnum mundi ekki verða nein bót að stöð þessari, þá get jeg ekki verið háttv. þm. samdóma um það; þeim hlýtur að geta orðið hún til gagns.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um mál þetta, en vona að eins að deildin búi ekki yfir þeim launráðum að fella alt upphaflega frumv. vegna þessarar viðbótar, og ef jeg vonaði ekki, að það mundi ná samþykki, bæði jeg hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá, svo að kostur væri með brtt., sem engin hefir fram komið, að fella loftskeytastöðina aftan af, en láta aðalgreinina standa.