08.09.1915
Efri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

58. mál, ritsíma og talsímakerfi Íslands

Jósef Björnsson:

Það er út af ummælum háttv. þm. Barðstr. (H. K.), sem jeg stend upp. Jeg verð að láta þá skoðun mína í ljós, að mjer finst það ekki vera mikil meðmæli með þessari væntanlegu loftskeytastöð, að sjálfsagt sje að;fleiri smástöðvar komi á eftir hingað og þangað Að minsta kosti tel jeg þetta engin með mæli á meðan engin reynsla er fengin fyrir því, hvernig það mundi borga sig. Jeg minnist þess, að þegar loftskeytamálið var til umræðu hjer á þingi 1911, og talað var um að reisa smástöðvar í. Vestmannaeyjum, Vík, Hornafirði og víðar þá var það tekið fram af þeim, sem andvígir voru loftskeytum, og vitnað til þeirra sem, mest vit áttu að hafa á málinu, að mikil tvísýna væri á, og enda harla ólíklegt að tekjurnar yrðu öllu meiri en reksturskostnaðurinn, sem þá var giskað á, að myndi verða 3–5 þús. kr. á hverri stöð, því alstaðar yrði stöðvarstjóri að vera sjerfræðingur. Ef þessi ummæli hafa verið rjettmæt, þá virðist hentugra að afla sjer nokkurrar reynslu, áður en margar slíkar smástöðvar eru reistar.

Það, sem mönnum hefir helst borið á milli um þessa væntanlegu stöð hjer í Reykjavík, er það, hvort hún eigi að vera svo stór, að hún nái til útlanda, eða hvort menn eigi að láta sjer nægja, að hún nái einungis til skipa hjer við land. Það hefir verið sagt hjer í deildinni nú, að útgjörðarmennirnir hjer í Reykjavík sjeu sumir því hlyntir, en aðrir hyggja að stöðin muni koma að næsta litlum notum. Jeg skal vitanlega ekkert um þetta dæma, en jeg get getið þess, að jeg hefi nýlega átt tal við einn af stærri útgerðarmönnum hjer í Reykjavik, og taldi hann ekki líklegt, að þetta mundi koma að miklum notum fyrir botnvörpungaútgjörðina, og sagði, að sjer fyrir sitt leyti væri engin þægð í slíkri stöð. Þó sannfærðist hann um það, er á leið samtalið, að mannbjörg mundi stundum geta orðið af, sem ella væri tvísýni á eða ókleif, og eru það óneitanlega mikil meðmæli.

Í sambandi við það, sem menn hafa talað um, að úr þessari litlu stöð mætti gjöra aðra stærri, vildi jeg mega spyrja hæstv. ráðherra, hvort hann mundi ekki telja ástæðu til, ef þessi litla stöð væri reist, að hafa þá hús og annað stöðinni tilheyrandi, að vjelum undanskildum, svo stórt, að nægja mundi stærri stöðinni, ef hún kæmi seinna. Ef þetta væri hægt, án þess að skaði yrði að, þá lít jeg svo á, að talsvert aðgengilegra sje að hugsa um minni stöðina. Sumir hafa reyndar haldið því fram, að hægt muni verða að selja vjelar allar fullvirði, sem notaðar yrðu, en naumast mun þó vera hægt að gjöra ráð fyrir því, að fá fult verð fyrir þær. En þó nokkur skaði yrði á þeim, væri það ekki setjandi fyrir sig, ef annað það, er til stöðvarinnar væri kostað, yrði notað við stærri og fullkomnari stöð.