12.08.1915
Efri deild: 30. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Háttv:

þm: Strand. (M P.) játaði, að vín væru ekki nefnd í lyfjaskránni, en fræddi menn á því, að það væru svo fjarska mörg lyf, sem ekki væru nefnd þar. Þessu gjörði jeg einmitt grein fyrir í erindi mínu til stjórnarráðsins. Þess hefði líka gjarnan hátt geta; að í gömlum lyfjum mörgum er áfengi, en ekki í nýju lyfjunum, nema örfáum, af öllum þeim mikla grúa. Af hundruðum ólöggiltra lyfja hjer í lyfjabúðinni var að eins áfengi í þremur.

Það er eitt orð háttv. þm. Strand., sem vert er að hafa í minnum. Hann kallaði vínin, sem hann er með, „lyf“. Jeg vil vekja eftirtekt manna á því, að þar er háttv. þm. Strand. einn síns liðs. Í yfirlýsingunni frá Læknafjelaginu höfðu læknarnir ekki slíkt orðbragð; þeir kölluðu vínin ekki lyf, og það af þeim ástæðum, er nú skal greina.

Hvað er í þeim gamalkunnu vínum? Aðalefnið er vínandi, auðvitað blandaður vatni. Saman við er svo oft sykur og ávalt einhver smekkefni. Þetta kalla menn vín.

Vitanlega voru þau í gamla daga búin til úr drúfum, en nú eru þau flest „óekta“, sprittblöndur með ýmiskonar litarefnum og bragðmiklum efnum. Jeg hygg, að harla lítið hafi verið drukkið hjer á landi af „ekta“ vínum. Vínandi út af fyrir sig er lyf, það játar hver læknir, og jeg ekki síður en aðrir. En að kalla alt þetta samsull, alla þessa alkunnu, áfengu drykki lyf, það er stórkostlegt rangnefni, og stjettarbræður mínir, þessir 14, láta sjer ekki slíkt um. munn fara. En háttv. þm. Strand. (M. P.), hann hefir sæmt þá gömlu drykki þessu heiðurs nafni. Nú vil jeg biðja menn að gá að því; að læknarnir hafa þó ekki löggjafarvald; þeir eru ekkert yfiralþingi; hjer er eingöngu að ræða um það, hvort, þessir gömlu drykkir eru nauðsynlegir til lækninga eða ekki.

Það er eftirtektarvert, að þessir merku læknar, sem vilja losna úr aðflutningsbanninu, þeir kalla ekki vínin lyf. Þeir tala um rjett sinn til að heimta alt, sem þeim dettur í hug. Við eigum að hafa rjett til að nota vín, segja þeir. Þeir segja ekki; að þeir þurfi þess. Hvers vegna eru nú þessir merku læknar svo varkárir í orðum? Það get jeg sagt ykkur. Þeim er vel kunnugt um, að þessa máli er svo farið, að það hlýtur að verða hljóðbært út um heiminn. Ef það bærist út um heiminn, ef erlendir vísindamenn heyrðu, að íslenskir læknar kalli áfenga drykki lyf, þá yrði það ekki til þess, að auka heiður íslensku læknastjettarinnar. Það vita læknarnir. Þetta er tvent ólíkt, það, hvort læknar eigi að vera rjetthærri en aðrir menn, og hitt, hvort vín sjeu nauðsynleg til lækninga.

Háttv. þm. Strand. (M. P.) og háttv. þm. Vestm. (K. E.) fóru hjartnæmum orðum um sjúklingana, sem færu á mis við þessa makalausu lífselixíra, rom, sherry &c., sögðu, að margir væru þeir sjúklingar, sem ómögulega gætu tekið inn neinar sprittblöndur, þeir yrðu að hafa vín, þeim yrði ilt af öllu öðru áfengi! Brjóstgæðin eru falleg, og jeg býst við, að þessi fagra prjedikun hrifi hjörtu manna.

Jeg hefi nú fengist dálítið við lækningar í 20 ár og oft notað áfengi. Jeg hefi reynt bæði vinin gömlu og áfengisblöndur. Og jeg hefi frá því að segja, sem allir geta skilið, að jeg hefi horfið frá vinunum og kýs heldur áfengi úr lyfjabúðinni, blandað ýmsum smekkbæti. Kaupi jeg vín, veit jeg aldrei hvaða efni eru í þeim búðardrykk, og veit það er varasamt, að gefa það samsull sjúklingum, sem hafa veikan maga. Jeg vil vita hvaða efni það eru, sem jeg læt sjúklinga mína taka inn, og þess vegna kýs jeg að gefa áfengisblöndur, samsettar í lyfjabúðinni, því að jeg veit alt af hvaða efni eru í þeim því ræð jeg sjálfur. Þess vegna er jeg t.d. fyrir löngu gjörsamlega hættur að gefa börnum vín, en hefi stundum haft áfengi handa þeim í ýmsum lyfjabúðarsamsetningum. En það er annað í þessu efni, sem var rjett hjá háttv. þm. Strand. (M. P.) og Vestm. (K. E.). Þeir töluðu báðir um það, að margir hefðu meiri trú á áfengum drykkjum en áfengisblöndum úr lyfjabúð. Það er öldungis rjett. Fyrr meir var höfð tröllatrú á vínum til lækninga; eitt vín átti við þessum sjúkdómi og annað við hinum. T. d. þegar kóleran gekk í Danmörku, var það alþýðu trú, að hægt væri að verja sig fyrir henni með kognaki, Jeg hefi nefnt eitt dæmi upp á þessa þjóðtrú í skýrslu minni til stjórnarráðsins. Það kom til mín maður ofan úr sveit og sagði mjer að hann hefði heyrt getið um vin, sem væri svo ágætt við geðveiki. Það hjeti lacrima Christi, Krists tár. Það eimir enn eftir af þessari gömlu víntrú; það eru enn til menn, sem hafa þá trú. Það er eðlilegt. En hitt er ekki eðlilegt, að löggjöf landsins sje hagað eftir slíkri röklausri hjátrú.

Jeg hefi orðið þess var, að eitt af því, sem óvinir bannlaganna hafa stöðugt í frammi, er að ala á þessari alþýðu trú á lækningakrafti vinanna. Það er ekki hægt að segja mikið til þess, þótt hinir og þessir gjöri það, en jeg verð að telja það illa farið, ef nokkur læknir verður til þess, að ala á þessari gömlu hjátrú, til þess að vekja ótrú á bannlögunnm. Jeg saka engan um það, en jeg tel það illa farið, ef svo væri.

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. Strand. (M. P.), sem var mjög athugavert. Árin 1908–1911 hafði jeg orðið þess áskynja. að allur þorri lækna var hættur að nota vin til lækninga. Það, sem háttv. þm. Strand. (M. P.) svaraði þessu, er mjög eftirtektarvert. Hann sagði að þá hefði verið vin til í búðunum, hægt t. d, á Norðurlandi að senda til Akureyrar eftir víni, sjúklingarnir sjálfir getað fengið það þar í búðunum.

En þetta er smáskrítið!

Hv. þm. Vest. (K. E.) lagði út af því, að áfengi væri nauðsynlegt í lungabólgu. Segjum nú að einhver norður í Öxarfirði fengi lungnabólgu; ætli það væri þá ekki nokkuð langt að sækja áfengið til Akureyrar? Ætli það kæmi þá ekki heldur seint handa sjúklingnum. Jú, jeg býst við því. Það kæmi of seint.

Því er það rjettara, sem háttvirtur þm. Strand. (M. P.) hjelt fram, að þegar vínið fekkst í kaupstöðunum, þá hafi engin ástseða verið fyrir læknana að hafa það, en nú þegar það er ekki, þá þurfi þeir að hafa vínbúðir.

Já, „vínbúðir“ sagði hann; það eru hans orð, og það er eftirtektarvert orð. En það er ekki nema um tvent að tala.

Annað hvort er áfengið nauðsynlegt sem læknisdómur, og þá á að skylda hjeraðslæknana til að hafa það til, eða það er ekki nauðsynlegt, og það hefir sannarlega ekki verið hrakið með brjefi læknanna, að nauðsynlegt sje að hafa nema spiritus conentr. til lækninga, og þá er sannarlega ekki nauðsynlegt að leyfa læknum, að setja upp 50 vínbúðir í landinu, eins og háttv. þm. Strand. (M. P.) orðaði það. Sami háttv. þm. (M. P.) sagði, að það væri saklaust, þó að læknum væri heimilað þetta, því að þeir hefðu hvort sem er nóg áfengi, nógan vínanda, sem þeir gætu látið úti.

Þetta er í fullu samræmi við það, sem háttv. Vestm. (K. E.) var að segja, en hann var að tala um „national“drykk Íslendinga, brennivínið. En það er þá merkilegt, að þessi góði lungnabólguborgari í Vestmannaeyjum skyldi ekki hafa lyst á sjálfum „national“-drykknum.

Þó það sje víst, að brennivín hafi verið mikið drukkið hjer á landi, þá hafa þeir ekki látið hæst, sem það drukku. Þeir, sem mest láta, eru heldri mennirnir, sem gæddu sjer á „fínu“ vínunum. Þá vantar kognak, portvín, sherry &c.

Hann er ekki langur, reynslutími bannlagunna enn þá, einir 7 mánuðir.

En, hæstv. forseti, jeg vil ekki segja alt, sem jeg veit um reynsluna í lyfjabúðunum síðan, þó að jeg viti að það styrkir mitt mál.:

En jeg ætlast til þess, hæstv. forseti, að menn trúi mjer, er jeg segi, að það eftirlit, sem jeg á að hafa, verður miklu erfiðara, ef brtt. háttv. þm. Strand. (M. P.) nær fram að ganga.

Ekki skal jeg þó leyna því, að síðan á nýári, og fram á þennan dag, hefir talsverð misbrúkun átt sjer stað. Það eru þeir læknar til, sem látið hafa úti áfengi, bersýnilega til nautnar. En það má enginn skilja þetta sem hnjóð í alla læknastjettina; því er nú, mjer liggur við að segja fjandans verr, að læknarnir eru manneskjur, og það brotlegar manneskjur, alveg eins og aðrir, og það er því rangt að ætlast til þess, að lög, sem við þá eiga, verði ekki brotin eins og önnur landslög. Þetta eftirlit er mjög erfitt.

Og háttv. þm. Strand. (M. P.), sem sjálfur er læknir, hlýtur að skilja það manna best hjer í háttv. deild, hve þetta eftirlit hlýtur að verða örðugt fyrir landlæknirinn, ef tillögur hans ná fram að ganga.

Við skulum nú hugsa okkur, að það komi fyrir, að einhver hafi út úr lækni í dag 10 £b af spiritus og 4 £b næsta dag, eða 12 flöskur í dag og 4 flöskur næsta dag. Og segjum svo, að landlæknir finni að þessu. Þá getur læknirinn svarað sem svo, að hann ráði sjálfur hvað hann gefi sjúklingum sínum til heilsubótar og hversu mikið hann gefi þeim.

En það gæti þó sjálfsagt komið fyrir, að það leyndi sjer ekki, að læknir bryti aðflutningsbannslögin — ljeti áfengi úti til neytslu.

Hvað á þá að gjöra? (Magnús Pjetursson: Refsa). Já — refsa. Í bannlögunum er lögð hegning við því, ef læknar brjóta þau, en það verður jafnan afar erfitt að sanna þau brot. Þá eru líka lögin um lækningaleyfi frá 1911. Þau gefa landlækni heimild til þess að áminna lækninn, og jeg býst við að hann byrji á því. En ef áminningin ekki hrífur, þá má landlæknirinn, eftir þeim lögum, svifta lækninn læknisleyfi. Á hann að gjöra það? (Magnús Pjetursson: Jeg svara, er jeg stend upp). Mjer væri kært að fá svarið strax. (Magnús Pjetursson : Læknirinn á ekki að vera laus við refsingu; það er sjálfsagt að refsa honum). Mjer þykir mjög mikilsvert að hafa fengið þetta svar. En háttv. forseti, jeg vil leyfa mjer að bera spurninguna líka undir háttv. þingdeild. Vill nokkur hv. þingmanna svara öðru vísi?

Nei! Það samþykkja allir með þögninni þetta svar; sem háttv. þm. Strand. (M. P.) gaf upphátt. Það hljóta líka allir að viðurkenna að það er rjett. En jeg veit að allir skilja, að það er ekki skemtilegt fyrir landlækni þetta eftirlitsstarf.

Svo er það um öll mál, að það er ábyrgðarhluti fyrir hvern mann, hvað hann leggur til þeirra. Fyrir hvern mann í landinu er það ábyrgðarhluti, hvað hann leggur til þjóðmála. Jeg veit að menn skilja það, að það er óþægileg aðstaða fyrir mig, þar sem jeg stend nærfelt einn míns liðs á móti því, er margir helstu læknar landsins halda fram. Þeir bera ábyrgð á því, er þeir halda fram, en jeg ber ábyrgð á mínu máli. Og nú eiga hv. þingmenn að skera úr, hver rjettara hefir, og það er líka ábyrgðarhluti fyrir þá, því rjettmæti eins máls fer ekki ekki eftir höfðatölunni, ekki eftir því, hversu margir eru með því eða móti. Hver rjettara hefir fyrir sjer, jeg eða stjettarbræður mínir, það er enn óafgjört mál, og það er ekki vandalaust fyrir hv. deild, að gjöra þar upp í milli, skera úr.

En það vil jeg segja, hæstv. forseti, að það alvarlega í þessa máli, ágreiningurinn sjálfur, honum er ekki lokið hjer í dag með þessum umræðum. Þetta mál er þessa stundina íslenskt þingmál, en það verður á komandi stund að alheimsmáli.

Hver úrslit málið fær hjer, það verður ekki dulið fyrir umheiminum.

Þetta vissi jeg strax í upphafi, og því vandaði jeg dóm minn vel og rækilega, og nú, er jeg fæ tækifæri til að íhuga hann enn á ný, þá finn jeg ekki ástæðu til að breyta hvorki einu nje neinu af því, sem jeg hefi sagt í því álitsskjali mínu.

Málstaður minn er sá, að þessir gömlu drykkir sjeu ekki lyf, og jeg er óhræddur um þennan málstað minn, er málið fer til æðra dóms — til vísindamanna í öðrum löndum.

En heiður minn er heiður læknanna; því er mjer það gleðiefni, að stjettarbræður mínir hafa ekki borið það fram — að 1 eða 2 undanteknum — að áfengir drykkir sjeu nauðsynleg læknislyf. Aðalkvörtun þeirra er sú, að þeir sjeu sviftir „rjetti“ sínum.

Þeir gjöra þá kröfu, að þeir megi heimta af lyfsölum til lækninga alt það milli himins og jarðar, er hugur þeirra kann að girnast, þótt það svo væri t. d. rustasneiðin af tunglinu! Þessi krafa er býsna fljóthugsuð, en það er oft erfiðast að fá menn ofan af því, sem minst er vitið í.

Hjer er því um það að ræða, hvort háttv. Alþingi vill uppfylla þessa frelsiskröfu læknanna og leysa þá úr aðflutningsbanninu, leysa þá undan lögunum um aðflutningsbann á áfengum drykkjum til Íslands.

Og jeg vil ljúka máli mínu hjer með því, að lýsa yfir því, að jeg tel það engan ósigur fyrir mig, þótt að brtt. hv. þm. Strand. (M. P.) yrði samþykt, en ekki vil jeg draga dul á það, að jeg óttast, að það yrði allri íslensku læknastjettinni til óhamingju, og ef svo færi, þá yrði sá sigur hv. þm. Strand. (M. P.) ósigur fyrir alla íslenska lækna, og þá líka fyrir mig — og hann sjálfan.

Eitt var það í ræðu hv. þm, Ísaf. (S. St.) við fyrstu umræðu þessa máls, sem vel var sagt. Hann vildi að bannlögin væru látin reyna sig; hann var þess fullviss, að þau mundu verða þjóðinni til blessunar, ef þau yrðu vel haldin og hann sagði að bannlögin væru ekki fullreynd fyrr en núverandi kynslóð væri dáin, og það var þetta, sem var svo vel sagt.

Jeg vil, úr því jeg er að ræða bann¬lögin, skjóta .því fram, að ef jeg hefði átt sæti á Alþingi 1909, heði jeg nauðugur greitt atkvæði með bannlögunum svona gölluðum eins og þau eru.

En hvað hafa andbanningar gjört? Fyrst hjeldu andbanningar því fram, að lögin ætti að afnema hið bráðasta. En það hlaut ekkert fylgi.

Þá vildu andbanningar að lögin væru borin undir þjóðaratkvæði, en það fór á sömu lund, og þeir urðu að hverfa frá því ráði.

Og nú eru allir orðnir sammála um, að lögin eigi að fá að reyna sig.

En hvað meina menn með því, að lög¬in fái að reyna sig?

Hvað menn meina með því, er víst mjög mismunandi, þó fáir orði það eins fallega og háttv. þingmaður Ísaf. (S. St.) um daginn. Það játa allir — í orði kveðnu, að gott væri, ef það tækist, að útrýma á¬fenginu úr landinu, en lengra nær sam¬komulagið ekki.

Margir menn óska þess einlæglega, eins og t. d. jeg og háttv. þm. Ísaf. (S. St.), að oss takist með lögunum að útrýma allri áfengisnautn úr landinu. En þeir eru aðrir, sem óska þess jafneinlæglega, að bann¬lögin reynist ekki vel, að þau reynist illa; Það eru hinir sannkölluðu andbanningar. Enn eru nokkrir þeir menn, sem ekki tíma því, að bannlögin reynist vel, og eru þess vegna móti þeim nú, en telja það þó þjóðarheill, ef þau skyldu reynast vel; í þeim hóp eru jafnmikils metnir og góðir menn, eins og t. d. háttv. 1. kgk. þingm. (E. B.).

En því ber ekki að leyna, að til eru þeir menn, sem gjöra alt hvað í þeirra valdi stendur, til þess að bannlögin reynist illa. Jeg hefi heyrt tigna menn, sem hafa á hendi trúnaðarstörf fyrir þjóðina, segja, að bannlögin skuli verða brotin, togararnir okkar skuli „smúla“ og læknarnir skuli hjálpa mönnum til að drekka. o. s. frv. Þessar hótanir hafa dunið í eyrum mjer, af vörum ýmsra mikilsmetinna manna. Jeg vil alls ekki segja, að það sje af þeim hvötum, sem þeir háttv. þm. Strand. (M. P.) og háttv. þm. Vestm. (K. E.) láta sjer svo einkar ant um, að leysa böndin af togurunum og læknunum.

En jeg segi, hæstv. forseti, að þeir, sem af heilum hug óska þess, að aðflutnings¬bannlögin reynist vel, þeir hljóta að vera á móti því, að togararnir megi koma hingað hlaðnir áfengi — sem „skipsforða“! og þeir hljóta að vera á móti þessum „vín¬búðum læknanna“, sem háttv. þm. Strand. nefndi svo og lætur sjer svo ant um.