18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson:

Eins og jeg tók fram við 2. umr. þessa máls, þá álít jeg sjálfsagðast og sómasamlegast fyrir Alþingi, að sjá um, að rjettur lækna verði í engu skertur, en það eitt fer þessi brtt. á þgskj: 377 fram á. Það getur vel verið, að sumum hv. deildarmönnum þyki hún of viðtæk. En þeir mega sannarlega sjálfum sjer um kenna. Þvi að eins og jeg tók þá fram, var fyrri tillagan einungis fram komin hjá mjer til samkomulags, til þess að rjetta höndina fram, og reyna að vera meðnefndarmönnum mínum til geðs. En þeir slógu svo rækilega móti þessari útrjettu hendi við síðustu umræðu þessa máls, að jeg hefi ekkert við þá að virða og læt því Gamminn geysa, hvort sem jeg sigli; til brots eða ekki með hv. meðflutningsmönnum mínum. En heldur vil jeg framfylgja svona tillögu, með allri atorku,. þótt hún falli, heldur en að nokkur geti framvegis borið mjer það á brýn, að jeg leggi liðsyrði þeim þröngsýnu ofstækismönnum, sem málefni sínu til stórskaða, feldu brtt. okkar hv. þm. Vestm. (K. E.) við 2. umr.

Af því að jeg gjöri ráð fyrir, að sömu ástæður verði á borð bornar fyrir þessa háttv. deild, á móti þessari tillögn, eins og á. móti hinni tillögunni, þótt þær sjeu talsvert fjarskyldar, þá ætla jeg að fara nokkuð út í sumt af því, sem þeir hv. frsm. (B. Þ.) og 5. kgk. þm. (G. B.) komu með þá, og jeg hvorki gat nje vildi að öllu leyti svara þá. Að vísu stendur allt óhrakið af því, sem jeg sagði þá, og mun standa, því móti því liggja engin rök.

Eitt af því, sem hv. 5. kgk. þm. (G. B.) kom með þá, og sem einnig er í tillöguskjalinu góða og margumtalaða, var það að af þeim lyfjum, sem ekki standa á lyfjaskránni, en fást í lyfjabúðinni, þá væri að eins þrjú lítið notuð lyf, semáfengi væri í. Þetta er alveg rangt. O jeg veit að hv. 5. kgk. þm. (G. B.) veit að hann hefir ekki farið hjer rjett með í lyfjabúðinni eru fleiri lyf utan lyfjaskrárinnar, sem hafa í sjer áfengi, og það eru sum af þeim, sem notuð eru allra mest af öllum lyfjum, að minsta kosti af sumum læknum; það eru sjerstaklega nokkur járnmeðul, svo sem Guderin, Fergan og Triferrol. Í þeim er, að því er mjer er sagt, ca. 10–12% vínandi að rúmmáli,. eða nærri eins og í sherry eða portvíni. Samkvæmt núgildandi lögum og lagaskýringum, er því algörlega óleyfilegt að nota þessi lyf, alveg óleyfilegt að flytja þau inn. En af því að hv. 5. kgk. þm. (G. B.) veit svo vel, að þessi lyf eru næstum ómissandi, þá hefir hann ekki framfylgt bannlögunum í þessu efni, heldur brotið þau eða ekki sjeð um að þau væru haldin.

Við síðustu umræðu sagði hv. 5. kgk. þm. (G. B.) að við læknar, sem viljum fá að nota vín til lækninga, myndum lítinn heiður fá í umheiminum fyrir þessa framkomu okkar, en hann því meiri fyrir sína. Mátti af þessu skilja, að engir læknar annarsstaðar myndu gjöra svona háar rjettindakröfur. Nú hefi jeg fengið að vita, að í Danmörku eru einmitt alveg sömu lagaákvæðin og við hjer óskum eftir, og þau ákvæði eru ekki eldri en frá 1913. Ekki eru þau lög heldur samin í flaustri, því að þau eru tilbúin af 24 manna nefnd, sem ransaka átti ýmislegt um heilbrigðishagi þjóðarinnar. Og í þeirri nefnd voru margir kunnir prófessorar og vísindamenn. Lagagrein sú mundi hljóða svo, ef jeg með leyfi hæstv, forseta má lesa hana upp í lauslegri þýðingu :

„Nú fyrirskipar löggiltur læknir, tannlæknir eða dýralæknir, lyf, sem samkv. því sem áður er sagt, þurfa ekki að vera til í lyfjabúðinni, og skal þá lyfsalinn hið bráðasta reyna að útvega þau, svo framarlega sem útvegun á þeim hefir ekki í fór með sjer tiltölulega of mikinn kostnað og fyrirhöfn“.

Danska greinin er hjer til sýnis, ef menn rengja mig. En það sem eftirtektarverðast er í þessu, er ekki sjálf lagagreinin, heldur athugasemd nefndarinnar, sem jeg áður nefndi, um þetta ákvæði.

Í mjög lauslegri íslenskri þýðingu hljóðar hún þannig, og vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp, og biðja hv. þingdeildarmenn að taka vel eftir:

„Þar eð lyfsalanum, samkvæmt 14. gr. laganna 3. lið, er gjört að skyldu — ef fyrir kemur að ráðlögð sjeu læknislyf, sem enga skyldu ber til að hafa í lyfjabúðum — að nálgast þau lyf svo fljótt sem auðið er, þá leiðir af því, að lyfsalar verða að hafa fult leyfi til að selja alt það, sem lækni getur komið til hugar að ráðleggja sem „læknislyf“, án þess að krafist verði af þeim nokkurs sjerstaks atvinnuleyfis. Orðið „læknislyf“ getur verið mjög víðtækt. Því verður ekki neitað að umbúðir, sem annars tilheyra vefnaðarvöruverslunum, skæri og tengur, sem annars eru í verkfærabúðum, kognac, tannduft, ávaxtasafi o. fl. getur í ýmsum atvikum verið skoðað sem læknislyf, og verður því að vera til í lyfjabúðum, ef þjóðin ekki á að bíða tjón af“.

Jeg vona að allir háttv. deildarmenn hafi heyrt þetta, og frumskjalið er hjer til sýnis, ef þeir óska að sjá það. En jeg vil minna á það, að háttv. 5. kgk. þm. (G. B.) hneyxlaðist á því, að jeg kallaði vínin lyf, en þessir háu herrar, sem þetta hafa samið, gjöra alveg það sama. Nema þá að hv. kgk. þm. (G. B.) vilji heldur þýða orðið „Lægemiddel“ læknismeðal eða eitthvað þess háttar, fremur en að þýða það lyf, en það skil jeg ekki eftir því hversu hreint og gott mál hann ritar.

Enn fremur vil jeg vekja athygli á því, að þessir 24 völdu menn, sem enga löngun eða tilhneigingu hafa til að draga sjerstaklega taum einnar skoðunar fremur en annarar á hverju meðali fyrir sig, hafa lýst yfir því, að þjóðin geti beðið tjón af því, að ekki fáist í lyfjabúðum alt, sem læknar óska eftir til lækninga.

Öflugri sannanir og öflugri rök hygg jeg að ekki þurfi til þess að sýna hvernig við stöndum alstaðar með pálmann í höndunum. Guðmundur Björnson: Og kognakið!).

Nú var jeg að hugsa um að snúa mjer að ýmsu, sem hv. frsm. (B. Þ.) bar á borð hjer í þessari háttv. deild í ræðum sinum, og þó sjerstaklega í líkræðunni, sem hann hjelt yfir mjer og hv. þm. Vestm. (K. E.).

Jeg bið hæstv. forseta strax að afsaka, ef jeg í þeim tilsvörum skyldi skutlast eitthvað út fyrir efni málsins.

Annars voru flest rök hans, getsakir einar, stóryrði og skammir, eins og oft vill verða, hjá þeim sem vantar rök, en hafa ekki skynsemi til að stjórna skapi sínu.

Hann þóttist lítið mark taka á þessum 16 læknum, þar sem á móti þeim væru 29 læknar, samkvæmt skjali landlæknis. Nú er jeg að hugsa um að reka þetta ofan í hann. Álits hefir verið leitað hjá þeim læknum, sem hægt er að ná í gegn um síma, og hafa borist símskeyti frá 34 læknum. Af þessum 34 læknum, eru einir 3, sem virðast vera á sama máli og landlæknirinn, Það eru þeir:

Gísli Pjetursson.

Sigurður Hjörleifsson,

Sigurður Magnússon, Patreksfirði.

En 27 læknar töldu sig samþykka læknasamþyktinni. Voru það þessir:

Andrjes Fjeldsteð, Reykjavík,

Árni Árnason, Búðardal,

Ásgeir Blöndal, Eyrarbakka,

Eiríkur Kjerulf, Ísafirði,

Friðjón Jensson, Akureyri,

Georg Georgsson, Fáskrúðsfirði,

Guðmundur Ásmundsson, Hólmavík,

Guðmundur Guðfinnsson, Stórólfshvoli,

Guðmundur Hallgrímsson, Siglufirði,

Guðmundur Thoroddsen, Húsavík,

Gunnlaugur Þorsteinsson, Þingeyri,

Halldór Steinsson, Ólafsvík,

Helgi Guðmundsson, Siglufirði,

Jónas Kristjánsson, Sauðárkróki,

Kristján Kristjánsson, Seyðisfirði,

Magnús Jóhannsson, Hofsós,

Ólafur Finsen, Akranesi,

Ólafur Thorlacius, Búlandsnesi,

Pjetur Thoroddsen, Norðfirði,

Sigurjón Jónsson, Dalvík.

Sigurmundur Sigurðsson, Breiðumýri,

Valdimar Steffensen, Akureyri,

Þorbjörn Þórðarson, Bíldudal,

Þórður Pálsson, Borgarnesi,

Þorgrímur Þórðarson, Keflavík,

Davíð Scheving Thorsteinson, Ísafirði, en hann var einungis samþykkur fyrri liðnum í áskorun læknafjelagsins.

Loks tóku tveir læknar það fram, að þeir vildu hafa vissar víntegundir, það voru þeir Jón Jónsson á Blönduósi, er vildi hafa tvær tegundir, sherry og portvín, og Steingrímur Matthíasson á Akureyri,. er vill hafa rauðvín, sherry og kognak. En einn læknirinn, Ingólfur Gíslason á Vopnafirði gaf ekkert ákveðið svar.

Símskeytin verða til sýnis og lögð fram á lestrarsalinn.

Af 50 læknum, er til hefir náðst, eru einir þrír á sama máli og landlæknirinn. Ætli því verði nú hjer eftir borið við, að læknarnir hafi mjög sundurleitar skoðanir á þessu ?

Þá var það eitt, sem hv. frsm. (B. Þ.): fór algjörlega rangt með, þegar hann sagði hvað eftir annað, að landlæknir áliti áfengi ekki læknislyf. Þetta er samkvæmt yfirlýsingu hans alveg rangt. Um það kemur okkur vel saman. Deilan er um það, hvort þessar ákveðnu áfengisblöndur, vín, sjeu nauðsynlegar eða ekki: Framvegis vona jeg að hv. frsm. (B. Þ.) muni þetta.

Háttv. frsm. (B. Þ.) sagði að það væri að fá örvitum hárbeittan brand í hendur, ef læknar fengju að hafa vín undir höndum. Jeg vona að allir menn muni þetta. Þvílík orð og slík traustsyfirlýsingtil einnar velmetinnar stjettar landsins,ættu að berast út og verða sem flestum kunn. Mjer datt ekki í hug að svara þessu við 2. umræðu, af því jeg taldi sjálfsagt, að hv. 5. kgk. þm. (G. B.), yfirmaður íslensku læknastjettarinnar, sem sæti á hjer í hv. deild, og á að vera sjálfkjörinn málsvari hennar, mundi taka duglega ofan í hv. frsm. (B. Þ.) fyrir slík skammaryrði til allrar stjettarinnar. (Guðmundur Björnson: Jeg tók ekki eftir því). Mjer þykir vænt um að hv. 5. kgk þm. (G. B.) tekur vel í málið og ætlar aðsvara því (Guðmundur Björnson: Já), en jeg tel sjálfsagt, að hv. frsm. (B. Þ.), hafi mælt þetta meðvitundarlítið í ofstækisvímu þeirri, er á honum var.

Þetta er nú ekkert, þó læknastjettin sje skömmuð, og þótt við flutningsmenn brtt. sjeum skammaðir, þar sem við höfum aðra skoðun en hv. frsm. (B. Þ.), en þegar ofstækin gengur svo langt, að farið er að ráðast á foreldra okkar, foreldra, sem alt hafa gjört til þess að gjöra nýta menn úr börnum sínum, og kenna þeim um skoðanir okkar, og bera þeim það á brýn, að þau hafi rekið óheiðarlega atvinnu, þá fyrst kastar tólfunum. Slíkt gjörir enginn drenglyndur maður, vitandi að umrætt fólk hefir allt af verið miklu heiðarlegra en viðkomandi sjálfur. Að alþingismaður skuli haga sjer svo, það er ótrúlegt, en það eru býsn mikil, er þar við bætist, að að alþingismaður þessi er einnig prestur. (Björn Þorláksson: Prestar verða að sekja syndurum til syndanna.) Má vera, ef um syndir væri að ræða, en svo er ekki hjer. Og hefði nú þetta verið sagt í bræði, var það ef til vill fyrirgefanlegt, en þegar hv. fram. (B. Þ.) kemur með þetta skrifað niður löngu áður, þá fyrst kastar tólfunum. Og að hugsa til þess, að hann skuli hafa skrifað niður þessi ummæli með sömu fingrunum og hann skrifar kirkjuræður sínar, já, þá verð jeg að segja að mjer verður flökurt af að hugsa til þess.

Hann var að tala um það, þessi háttv. þm. (B. Þ.) að jeg og hv. þm. Vestm. (K. E.), værum að byggja okkur minnisvarða. Ekki óttast jeg þann minnisvarða að neinu leyti; jeg er þess viss, að mjer verður fremur hjer sómi að. En hitt vona jeg, að háttv. frsm. (B. Þ.) hafi með hinni samúðarsneyddu framkomu sinni í þessu máli, velt ofan á sig þeirri dys, sem hann fær ekki undir risið, svo hann eigi ekki framar uppreisnarvon sem þingmaður á Alþingi Íslendinga.

Jeg bið, hæstv. forseti, afsökunar á því, að jeg fór út fyrir sjálft málefnið, en þeir, sem í glerhöllu búa, mega aldrei grjótkast hefja. Það má vel ske, að þessi brtt. á þgskj. 377 falli hjer í hv. deild, en það læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, því jeg og skoðanabræður mínir, höfum unnið svo algjörðan sigur í þessu máli, að það þarf mikið siðferðisþrek til þess að halda áfram að berja fram þessar fáu mótbárur, sem hafa fram komið gegn oss, og greiða atkvæði gegn tillögu vorri og þvert ofan í alla sanngirni og rjettsýni.

Jeg legg málið óhræddur á eftir undir dóm alþjóðar, til samanburðar á rökum og rangsleitni.