18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Framsm. Björn Þorláksson :

Háttv 5. kgk, hefir að miklu leyti tekið af mjer ómakið, að svara ræðu hv. Strand., en þó get jeg ekki látið vera að minnast á brtt. þá, er hann flytur, ásamt 3 öðrum hv. þm., og er á þgskj. 377. Br.till. er að miklu leyti 1. gr. gildandi bannlaga orðuð um, og breytingin þessi, að lyfsölum og læknum skuli heimilt að flytja inn áfenga drykki og vínanda þann, er læknar telja nauðsynlegan til lækninga. Í gildandi lögum er lyfsölum leyft að flytja áfengi til landsins samkvæmt lyfjaskránni. Vil jeg benda á, að hjer er farið fram á hið sama og búið er að fella hjer í deildinni, sem sje brtt. um, að leyfður sje innflutningur á rauðvíni, portvíni, sherry og cognac. Sú till. var borin fram til þess, að læknar og lyfsalar gætu flutt vín til landsins. Nú er búið að vekja hana upp aftur, og þó nokkuð þriflegri og umfangsmeiri.

Það þótti viðurhlutamikið að leyfa læknum og lyfsölum að flytja vín til landsins. Nú er gengið lengra; leyft að flytja inn öll vín, sem læknum kann að detta í hug að nota. Þetta er nokkuð líkt því, eins og að við 2 umr. hefði verið felt að veita 20 þús. kr. til bylgjubrjótsins í Bolungarvík, en við 3. umr. væri samþykt að veita 100 þús. Tilgangurinn get jeg ekki sjeð, að sje annar en sá, að losa um öll bönd bannlaganna þannig, að þau nái alls ekki til lækna eða lyfjabúða. Þeir eiga að fá að flytja inn alt, sem þeir vilja; nú er það ekki bundið við neinar lyfjaskrár; nei, það er svo sjálfsagt, að það þarf ekki að standa neinstaðar; þeir mega heimta það.

Hv. þm. Strand. nefndi í ræðu sinni við 2. umr. vínin lyf. Nú eru þessi vín hans orðin svo sjálfsögð lyf að þau standa fyrir utan og ofan alla lyfjaskrá. Tilgangurinn með þessu er að koma upp búðunum, sem hv. þm. talaði um, og kallaði vínbúðir lækna; var það rjett að orði komist frá hans sjónarmiði. Í þessum vínbúðum eiga öll möguleg vín að vera til sölu. Jeg þekki ekki mikið til vína, en þó vil jeg telja upp þau helstu, sem jeg þekki nöfn á, og eru þau: Absinth, Arrak, Akaviti, Bjór alls konar, danskur, þýskur og enskur, Banko, Brennivín, Champagne, Cognac, Lacrima Christi, Ladevín, Likör, Madeira, Malaga, Rauðvín allskonar, Rínarvín alls konar, Rom, Genever, Sherry, Portvín, Tokayer. Whisky ofl. ofl.

Jeg var að tala um vínbúðir lækna og vínin í þeim. Nú síðustu árin áður en bannlögin gengu í gildi, voru liðlega 20 menn, sem höfðu vínsöluleyfi, en eftir tillögu þessari verða þeir rúmlega helmingi fleiri. Jeg get ekki sjeð framförina. Reyndar gjöri jeg ráð fyrir að margir betri og reglusamari læknar mundu ekki nota sjer þetta leyfi, en það er misjafn sauður í mörgu fje, og hætt við að fjárplógurinn risti alldjúpt í hold sumra þeirra. Jeg heyrði nú nýlega að landlæknir sagði, að einn lyfseðill hefði verið gefinn fyrir 50 bjórum, og annan veit jeg um fyrir 5 pt. af spiritus. Hvorttveggja var til neytslu. Af þessu má nokkuð álykta, hvernig einstakir menn munu nota sjer þetta, og hve stór kaupin yrðu. Jeg er ekki í vafa um hreyfingu þá, sem Magnús Einarsson dýralæknir kom af stað, og um tilganginn með breytingartillögu háttvirts þingmanns Strand og meðflutningsmanns hans, til þess er tilgangurinn of bersýnilegur. Nú hygg jeg að vissan sje fullkomin og slæðan fallin burt. Nú tjáir ekki að hræsna lengur með þeim uppgjörðarfagurgala að þeir vilji lögunum vel, vilji lofa þeim að reyna sig.

Hv. þm. Strand. sagði um ræðu mína við 2 umr., að hún hefði verið full af stóryrðum og skömmum, en honum tókst ekki að sýna það með öðru en stóryrðum, röksemda- og sannanalausum. Hann reyndi að draga fram einstök orð, svo sem að jeg hefði sagt, að það væri sama að veita læknum leyfi þetta, og að fá örvita manni bitran brand í hendur, og að þetta hefði verið sagt til allrar stjettarinnar, en það var ekki sagt nema til einstakra manna, svo sem til þeirra, sem drekka sjálfir upp sinn eigin spiritus, eða láta sjer þau orð um munn fara, að þeir muni alls ekki hlýða aðflutning, bannslögunum, heldur brjóta þau hve nær og hvar sem þeir koma því við. Þm. kvartaði undan hörðum orðum frá mjer í sinn garð. Jeg get ekki gjört að því; málshátturinn gamli segir, að sök bíti sekan, en mín orð voru þannig, að þau gátu ekki meitt neinn. Hvað viðvíkur orðum þeim, er jeg hafi átt að viðhafa um foreldra hans, þá vísa jeg þeim aftur sem hreinum ósannindum, og má hann kyngja þeim. Jeg sagði hann. uppalinn á vínveitingaheimili, og það hygg jeg að sje satt. Býst :jeg við, að hann hafi reiðst af því, að jeg kallaði vínsöluna óheiðarlega atvinnu, en það hefi jeg álitið lengi, og mun gjöra svo framvegis.

Jeg sagði um þessa háttv. andstæðinga mína og andbanninga, að þeir væru uppaldir á vínveitingastað; jeg sagði það til þess að gjöra mjer og öðrum skiljanlegt, hvers vegna þeir væru andbanningar. En það sem jeg sagði um að óhamingja fylgdi oft slíkum heimilum, þá var það alment talað, og enda viðurkend sannindi. Jeg hygg að háttv. þm. Strand. (M. P.), sem er latínulærður maður, hafi tekið eftir latneska málshættinum, sem jeg fór með ç: Per quod quis peccat, per idem punitur et idem. Og annars hefðu margir gott af því að taka eftir honum. En þessi málsháttur, eða þetta orðatiltæki, er mörg hundruð ára gamalt, með öðrum orðum þetta hafa verið viðurkend sannindi í mörg hundruð ár. Það segir sig því sjálft, að háttv. þm. Strand. (M. P.) og Vestm. (K. E.) hafa enga ástæðu til að reiðast þessum orðum. Að öðru leyti sagði jeg ekkert um foreldra þeirra, enda þekki jeg ekki nema foreldra annars. Ætlun mín var alls ekki sú, að dæma þá á neinn hátt, og það sem jeg talaði var frekar sprottið af því, að jeg aumkaði þá, heldur en að jeg vildi óvirða þá. En jeg get ekki stilt mig um að taka það fram, að jeg álít það ekki lán, að vera alinn upp á þá leið, sem minst hefir verið á.

Háttv. þm. Strand. (M. P.) talaði mikið um ofstæki, sem kæmi fram í þessu máli, og mun það sjerstaklega hafs verið meint til mín, og þurfum við Templarar og bindindismenn ekki að kippa okkur upp við það, þó okkur sje borið það á brýn. En svo hefir undarlega við brugðið nú á síðari árum, að orðið hafa algjörlega hausavíxl á þessu. Nú eru það andbanningar, sem ofstæki sýna, eins og framkoma háttv.

þm. Strand.. (M. P.) sannar svo ljóslega. Þessi háttv. sami þm. sagðist vænta þess,

að jeg hefði með framkomu minni hlaðið þá dys utan um mig, sem jeg mundi ekki. fá risið undir, og mundi því ekki eiga afturkvæmt hingað í deildina.

Við þessa spá hans er jeg óhræddur þó mjer hins vegar þyki líklegt að jeg muni ekki verða á næsta þingi; óvíst að jeg sækist eftir kosningu. En ef jeg biði mig fram og kæmist ekki að, mætti mjer vera það huggun ekki lítil, að þurfa ekki lengur að standa í stríði við háttv. þm. Strand. (M. P.), sem hefir svo ramskakka. og öfuga skoðun í landsins mesta velferðarmáli.