18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Karl Einarsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 398. Jeg bjóst við því, að framsm. mundi lýsa svo skýrlega brtt. nefndarinnar, að jeg hefði ekki þurft að standa upp. En mjer brást það, því hann sneri út úr greininni á alveg óleyfilegan hátt. Hann lagði út af því, að núverandi stjórn Eimskipafjelags Íslands hefði bannað að hafa vín á skipum sínum hjer við land. Þetta kann að vera satt. En svo sagði hann að þetta ákvæði í 1. málsg. 2. gr. sje fram komið af hræðslu við að næsta stjórn verði ef til vill á annari skoðun. Þetta er ekki rjett. Ef 2. gr. verður samþykt, þá er öllum íslenskum skipum bannað að hafa vín hjer við land. Þar stendur að innsigla skuli alt áfengi á fyrstu höfn, og megi ekki brjóta innsiglið fyrr en farið er frá síðustu höfn. Undantekning er gjörð með útlend skip, sem fá að hafa vín frá einni höfn til annarar.

Nauðsynlegt er, að mínu áliti, að stjórnarráðið setji reglur fyrir íslensk skip, því annars mætti misbrúka regluna í 2. gr.

Annars ætla jeg ekki að fjölyrða frekar um málið. Jeg ætla að eins að taka það fram, að jeg ætla ekki að fara að skattyrðast um foreldra mína eða uppeldishæfileika þeirra. Tíminn verður að skera

úr því, hvernig þeir hafa verið. Annars vildi jeg biðja hæstv. forseta að sjá um, að þau fái að liggja óáreitt í gröf sinni, því þar liggja þau nú bæði.