18.08.1915
Efri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Kristinn Daníelsson :

Jeg ætla mjer raunar ekki að tala langt mál, en mig langaði til, af því að jeg er gamall bannvinur, að taka það fram, að jeg er á sama máli eins og bannmennirnir í nefndinni. Mjer hefir þótt leiðinlegt að heyra hvað mikið hefir verið talað hjer um þröngsýni og ofstæki bannmanna. Jeg fyrir mitt leyti þykist geta rætt þetta mál hitalaust og ofsalaust. Enda hygg jeg sannast að segja, að ofstækið sje ekki minna á andbanninga hlið en okkar, eins og lítinn vott mátti sjá um af dagskrá þeirri, sem áðan var lesin upp hjer í deildinni. Jeg vil játa, að það er inngróin sannfæring mín, að bannmenn berjist móti einhverju hinu þyngsta þjóðarböli og fylli jeg því þeirra flokk, án allra öfga og ofstækis.

Jeg vil þá minnast lítið eitt á brtt. á þgskj. 377. Jeg lít svo á, að það geti ekki komið til mála, að hún verði samþ., nema sjónarmið okkar bannmanna eigi með öllu að lúta í lægra haldi. Hv. þm. Strand. (M. P.) þykist að vísu hafa fært fullar sönnur á, að sú tillaga sje rjettmæt, en jeg get ekki sjeð, að honum hafi tekist það. Þótt meiri hluti lækna í landinu sje honum sammála, þá sannar það ekkert. Hjer standa tvær skoðanir á öndverðum meið, landlæknirinn fylgir annari, hv. þm. Strand. (M. P.) og hans fylgismenn hinni, og er leikmönnum ekki auðvelt að sjá, hvorir hafa meira til síns máls. En það vona jeg að enginn lái bannmönnum, þó að þeir hallist heldur á sveifina með þeim, sem þeirra mál styðja. Ef allir læknar væru á eitt sáttir, þá væri öðru máli að gegna. Hinn hv. þm. Strand. (M. P.) reyndi að styðja mál sitt með því, að vitna í danskt nefndarálit, þar sem sagt er, að það væri þjóðartjón, ef áfengi væri ekki í lyfjabúðum. En það er ekki að vita, hvað lengi þessi skoðun verður ofan á í Danmörku. Nú fjölgar bannvinum stöðugt þar í landi, og þegar þeir eru komnir í meiri hluta; er ekki víst að slíkum skoðunum verði haldið þar fram. — Þar að auki get jeg ekki sjeð, að það geti komið til mála að samþykkja þessa tillögu, af þeirri ástæðu, að við síðustu umræðu þessa máls var sams konar tillaga feld, sem þó fór ekki eins langt. Þá voru þó tilteknar vissar víntegundir, sem ættu að vera til í lyfjabúðum, en nú á að láta allt laust og óbundið. Jeg hygg það tvímælalaust, að tillagan brjóti beint í bág við anda bannlaganna, og það verð jeg að segja, að þótt jeg engan veginn vilji drótta nokkru óheiðarlegu að læknastjettinni í heild sinni, þá eru þó til þeir læknar, sem jeg veit að helst ættu ekki með vín að fara. Mjer dettur ekki í hug að ásaka hv. þm. Strand. (M. P.) og hv. þm. Vestm. (K. E.) um illar hvatir. En jeg er hræddur um að læknum gangi meira til, að þeim sje orðið þetta metnaðarmál, heldur en að þeir hyggi þetta nauðsyn. Þeir álíta, að verið sje að ganga á rjett læknastjettarinnar, og það vilja þeir ekki þola. Það er sjálfsagt satt, að rjettur lækna er dýrmætur, en jeg get að eins ekki fallist á, að hann eigi að vera takmarkalaus. Hann verður að lúta í lægra haldi, þegar slík þjóðarnauðsyn er annars vegar, sem hjer ræðir um. Hv. þm. Strand. (M. P.) gat þess um daginn, að til væru eiturtegundir, sem væri miklu skæðari en áfengi, og þó dytti engum í hug, að banna að hafa þær í lyfjabúðum. Því vil jeg svara svo, að ef það sannaðist, að þær væru jafn háskalegar sem áfengið, þá mundi jeg þegar verða því meðmæltur, að þær verði teknar af lyfjaskrá. — Vil jeg svo ljúka máli mínu með þeirri ósk, að brtt. á þgskj. 377 verði feld.